BLIND: „Skemmtilegasta hugmynd sem ég hef framkvæmt“

Fyrstu BLIND-tónleikarnir af sex verða haldnir í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði í hádeginu á miðvikudaginn, en þá verður raftónlistarverkið Laser life flutt.



Er þetta þriðja sumarið í röð sem að tónleikaröðin er haldin, en tónlistarmaðurinn Jón Hilmar Kárason, skipuleggjandi og hugmyndasmiður þeirra.

„Ég var beðinn um að standa fyrir einhverjum viðburðum í hádeginu, þannig að ég settist niður og fór að pæla hvað hægt væri að gera, en þannig kviknaði hugmyndin,“ sagði Jón Hilmar í samtali við Austurfrétt.

BLIND tónleikarnir hafa vakið mikla athygli, enda algerlega einstakir, þar sem gestir upplifa viðburðinn með budnið fyrir augun og eru hljóðblandaðir í „surround“. Í ár er dagskráin glæsileg, blanda af okkar efnilegasta tónlistarfólki og þekktum listamönnum.

„Eins ótrúlega og það hljómar hef ég hvergi fundið sambærilega hugmynd á netinu eða annarsstaðar. Listamenn eru alltaf að leita eftir er að gera list sem hefur áhrif á aðra, sem getur breytt einhverju.

Nokkrum mánuðum eftir BLIND tónleikana á Bræðslunni í fyrra þar sem Berglind Ósk sagnaþula var með okkur Guðjóni Birgi að gera tónleikana var hún stoppuð af ókunnugri konu í Kringlunni og spurð hvort hún hefði ekki verið með BLIND á Bræðslunni. Hún sagðist aldrei hafa upplifað aðrar eins tifinningar og muni aldrei gleyma tónleikunum.

Mér þykri svo vænt um þessa litlu sögu, en það kemur fyrir að fólk grætur, hlær, sofnar eða lendir í djúpt hugleiðsluástand á meðan tónleikunum stendur – og nei, þetta er ekki eins og að hlusta á tónlist með lokuð augun, en með því móti lætur maður auðveldlega truflast,“ segir Jón Hilmar.


Fór að gráta við ljóðalestur

Jón Hilmar segist bjóða listamönnunum aðstoð eftir þörfum, en það sé ekki síður sérstakt fyrir þá að upplifa tónleika sem þessa.

„Á einum tónleikunum síðasta sumar aðstoðaði ég listamann við framkvæmd tónleikana með því að lesa ljóð. Þegar ég var að klára fyrsta versið fór ég að hágráta og náði ekki með neinu móti að klára lesturinn. Þar sem allir voru með bundið fyrir augun tók held ég engin eftir því.

Í hvert og eitt skipti ræður sá listamaður sem auglýstur er ferðinni, hann getur tekið tónleikana á þann stað sem honum sýnist og möguleikarnir eru óendanlegir. Þar sem áhorfandinn sér ekki greinir hann bara hljóð, finnur lykt og loft hreyfast. Engir fordómar eru um að kaktus sé ekki hljóðfæri eða að það að strjúka borð sé ekki tónlist.

BLIND tónleikar sumarsins verða í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði alla miðvikudaga í júlí klukkan 12:00. Auk þess verða BLIND tónleikar á Eistnaflugi í Neskaupstað og á Frönskum dögum á Fáskrúðsfirði. Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði og er unnið í samstarfi við Tónlistarmiðstöð Austurlands.

  • 6. júlí - Raftónlistarverkefnið Laser life
  • 13. júlí – Hin bráðefnilega Anya Shaddock
  • 20. júlí – Prins Póló
  • 27. júlí – Tónlistarkonan Greta Mjöll Samúelsdóttir

 

Miðaverð við innganginn er 2000 krónur og súpa og brauð er innifalið í miðaverði. Hægt er að fá miða á alla þessa viðburði á sérstöku tilboðsverði á síðunni www.jonkarason.is.

 BLIND

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar