Skera tónlist á vínylplötur með gamla laginu
Í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði, þar sem hljóðverið Stúdíó Síló er til húsa, er nýverið farið að bjóða tónlistarfólki upp á að gefa tónlist sína út á vínylplötum, sem skorar eru á staðnum.Það eru þeir Vincent Wood (Vinny), maðurinn að baki hljóðverinu og Lukasz Stencel, sem rekur kaffibrennsluna Kaffi kvörn í Sköpunarmiðstöðinni, sem voru að ræða um hvað hljóðið af gömlu plötum væri þægilegra en af stafrænu formi. Þar með fór boltinn af stað.
„Við höfðum fregnir af því að í geymslu hjá Ríkisútvarpinu væri sjötíu ára gömul vínylskurðvél sem safnaði ryki og enginn vissi hvað gera skyldi við,“ útskýrir Vinny.
„Hún var úr sér genginn og biluð en við sáum þar tækifæri, óskuðum eftir að fá hana til okkar og það gekk eftir ákveðinn tíma. Í kjölfarið þurftum við að eyða töluverðum upphæðum í að lagfæra tækið og betrumbæta til að geta tekið upp í steríógæðum en nú er svo komið að hún er orðin fyrsta flokks.
Því getum við hér hjá Stúdíó Síló getum boðið listamönnum að taka upp og skera tiltekinn fjölda platna í kjölfarið. Við vonum að einhver áhugi sé á slíku hér því erlendis hefur þeim farið mjög fjölgandi tónlistarmönnunum sem það vilja og nú er enginn annar staður hérlendis sem þetta býður.
Við höfum þegar orðið vör við áhuga og bara jákvætt að fleiri frétti af því að þetta sé í boði. Þó með þeim formerkjum að við getum aðeins skorið þetta tíu, tuttugu eða þrjátíu eintök eins og sakir standa. Við ráðum ekki við að svo stöddu að skera fleiri hundruð eintök,“ segir Vinny.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.