Skiptast á að taka vaktina á handverksmarkaðnum á Vopnafirði

Einar átta handverkskonur standa saman að handverksmarkaðnum í Kaupvangi á Vopnafirði en sá hefur verið rekinn þar í bæ um margra ára skeið. Stelpurnar skiptast systurlega á að standa vaktina en opið er daglega út sumarið.

Markaðurinn opnaði þetta sumarið fyrir tæpum tveimur vikum á sínum hefðbundna stað í Kaupvangshúsinu í miðbæ Vopnafjarðar en þar er Gyða Jósepsdóttir ein þeirra sem þar stendur í stafni. Aðspurð segir hún aðsókn hafa verið dræma fyrstu dagana í sumar en það sé í raun ekki svo ýkja óalgengt. Besti tíminn sé jafnan júlímánuður.

„Við höfum rekið markaðinn í þessari mynd minnir mig í um tíu ára skeið. Við vorum upphaflega annars staðar í bænum en fengum inni í Kaupvangi á sínum tíma og það gefist vel. Það hefur verið lítil umferð gesta það sem af er. Ekki aðeins á markaðnum hjá okkur heldur í bænum sjálfum hingað til. Það kann að vera að veðrið hafi þar áhrif því þetta er aðeins minna en almennt hefur verið undanfarin ár. Engu að síður eru það júlí og ágúst sem eru sterkastir hjá okkur hér svo þetta getur bara batnað.“

Prjónavörur og trémunir

Á markaðnum má finna fjölbreytt úrval handverks úr héraði líkt og á öðrum slíkum handverksmörkuðum sem heilt yfir virðast þrífast betur og betur með fleiri erlendum ferðamönnum á leið um landið. Það er sama sagan á Vopnafirði að sögn Gyðu.

„Flestir sem til okkar koma eru ferðamenn og þeir margir eru spenntir fyrir þessum hefðbundnu peysum okkar. Lopapeysan selst alltaf ágætlega og úrvalið hjá okkur er gott. Við erum með mikið ýmis konar prjónavörur. Þar ýmsar peysur, sjöl, vettlingar auðvitað og sokkar. Við seljum líka heklaðar fígúrur eins og bangsa og dúkkur ýmsar. Svo er eiginmaðurinn duglegur að vinna ýmislegt úr tré eins og fígúrur og slíkt sem við seljum hér líka. Það er svo skrýtið að erlendu gestirnir eru nánast eingöngu að spá í prjónavörunum en Íslendingarnir sem hingað reka inn nefið sýna trémunum meiri áhuga.“

Tvær úr hópnum að störfum á markaðnum. Þær skiptast allar á að sitja vaktina en opið er daglega allt sumarið milli 13 og 18. Mynd:Aðsend

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar