Skip to main content

Síldarkvótanum komið í höfn

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. sep 2009 18:10Uppfært 08. jan 2016 19:20

Nú styttist í að veiðum skipa HB Granda á síld úr norsk-íslenska síldarstofninum ljúki á þessu sumri. Veiðarnar hafa verið stundaðar innan íslensku lögsögunnar og hafa þær gengið vonum framar. Hvert þriggja uppsjávarveiðiskipa fyrirtækisins á eftir að landa einu sinni á Vopnafirði, haldist veiði góð og veður skikkanlegt.

sld.jpg

Á vefsíðu HB Granda er haft eftir Vilhjálmi Vilhjálmssyni, deildarstjóra uppsjávarsviðs að veiðarnar innan íslensku lögsögunnar hafi gengið það vel í sumar að hverfandi líkur séu á að fyrirtækið þurfi að nýta réttinn til að veiða hluta kvótans í norsku lögsögunni. Að sögn Vilhjálms kom Ingunn AK til Vopnafjarðar með um 1.000 tonna afla sl. föstudag og í gær kom Lundey NS þangað með um 900 tonn.

 ,,Staðan núna er þannig að hvert okkar þriggja skipa á eftir að landa einu sinni enn á Vopnafirði og vonandi helst veiðin það góð að það gangi eftir. Veiðin hefur færst töluvert austar síðustu dagana og Faxi RE er nú austur undir Síldarsmugunni um 200 sjómílur austur af Langanesi og bíður þess að Ingunn komi á miðin. Enn er verið að frysta síld úr afla Ingunnar og því er ekki reiknað með því að skipið verði á miðunum fyrr en seint annað kvöld. Í framhaldinu tekur svo við frysting á afla Lundeyjar á Vopnafirði, segir Vilhjálmur Vilhjálmsson.