Smári Geirsson á fertugasta Kommablótinu í röð

Ný nefnd verður útnefnd að komandi Kommablóti í Neskaupstað sem verður hið 54. í röðinni. Smári Geirsson kemur fram í fertugasta skiptið í röð.

Kommablótið 2020 verður haldið í íþróttahúsinu í Neskaupstað þann 1. febrúar næstkomandi. Nafnið er dregið af því að Sósíalistaflokkurinn í Neskaupstað hóf skemmtanahaldið árið 1965. Þá gátu aðeins flokksfélagar fengið miða og boðið með sér gestum.

Blótið hefur síðan verið opnað, en haldið hefur verið í ýmsar aðrar hefðir og nafninu ekki verið breytt. Eins hefur alla tíð sá háttur verið á hafður að sérhver hópur sem blótið sækir hefur séð um sinn þorramat og haft hann með sér í trogi.

Gerð og flutningur annáls hefur verið í höndum örfárra manna sem jafnvel hafa sinnt hlutverki sínu áratugum saman. Smári Geirsson kemur í ár fram í fertugasta skiptið í röð sem annálsritari og skemmtikraftur, sem er örugglega Íslandsmet ef ekki heimsmet. Guðmundur heitinn Bjarnason, sem einnig var lengi annálsritari, kom fram álíka oft.

Nú hefur hins vegar verið ákveðið að breyta fyrirkomulaginu á Kommablótinu og verður tilnefnd ný „nefnd“ fyrir blótið 2021. Gamla nefndin verður til ráðgjafar en ljóst er að þetta verður síðasta blótið í þessari mynd. Aðrir sem skemmta með Smára hafa verið samfellt frá árinu 2002.

Snemma skapaðist sú hefð að heiðursgesti var boðið á blótið og hafa margir þeirra vakið mikla lukku með framlagi sínu. Að þessu sinni er heiðursgesturinn Draupnir Rúnar Draupnisson, sem er fæddur og uppalinn í Neskaupstað. Draupnir starfar í ferðabransanum og er örugglega einn víðförlasti Norðfirðingur sem sögur fara af. Draupnir er sennilega líka yngsti heiðursgestur á blóti til þessa.

„Ekkert varir að eilífu og á næsta ári verða breytingar. Fyrir þá sem eru íhaldssamir, þá er síðasti sjens að njóta Kommablótsins eins og það hefur alltaf verið,“ segir í tilkynningu frá skipuleggjendum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar