Sonja Björk íþróttamaður Hattar
Knattspyrnukonan Sonja Björk Jóhannsdóttir var á þriðjudag útnefndur
íþrótta- og knattspyrnumaður Hattar fyrir árið 2008. Íþróttamenn
félagsins voru heiðraðir á þrettándabrennu þess.
Hún var um áramótin valin öðru sinni í 27 manna landsliðshóp sem kemur saman í febrúar, en æfingar standa yfir fyrir Evrópukeppnina í Finnlandi í sumar. Landsliðsþjálfarinn sá fyrst til Sonju fyrir ári á æfingu með karlaliði Hattar. Afrek hennar er enn meira fyrir þær sakir að Hattarliðið spilar í 1. deild kvenna.
Una Bergsteinsdóttir var valin sundmaður ársins fyrir jafnan og góðan árangur á mótum.
Valgerður Hreinsdóttir var valin blakkona ársins. Hún hefur verið lykilmaður í blakliðinu undanfarin ár sem hefur náð fínum árangri í neðri deildum. Hún er einstaklega góð fyrirmynd annarra íþróttamanna, innan vallar sem utan.
Linda María Karlsdóttir er fimleikamaður ársins. Hún var meðal máttarstóla hópfimleikaliðsins í fyrra, vinnur vel á æfingum, sýnir mikinn áhuga og er góð fyrirmynd.
Daði Fannar Sverrisson er frjálsíþróttamaður Hattar. Hann varð í fyrra bæði Íslands- og unglingameistari í spjótkasti 12 ára drengja þar sem hann kastaði 37,78 metra sem er með betri köstum frá upphafi í aldursflokknum samkvæmt skráningu FRÍ.
Kristinn Harðarson, var valinn körfuknattleiksmaður ársins, en hann hefur verið lykilmaður í liðinu seinustu ár, þykir góð fyrirmynd og berst í hverjum leik.
Fjölnir Þrastarson er skíðamaður ársins. Hann vann Austurlandsmót í fyrra og náði verðlaunum á Andrésar Andarleikunum í stórsvigi. Metnaður hans á æfingum skilaði sér þannig í keppnum.