Sótti sjó í fjörðinn, fór á Youtube og sló inn: How to make salt
Birkir Helgason lenti í bílslysi fyrir nokkrum árum og var ráðlagt af lækni að leita sér að öðrum starfsvettvangi. Hann starfaði áður sem kokkur en leitaði ekki langt yfir skammt heldur út í fjörð. Þar nældi hann sér í sjó. Hann framleiðir nú salt með þremur bragðtegundum og var að bæta við kryddsmjöri í vöruúrval sitt.
„Þetta var í nóvember 2018. Ég sótti sjó í fjörðinn, fór á Youtube og sló inn: „How to make salt“. Þannig byrjaði þetta og gekk strax ljómandi vel og þegar ég var búinn að gera nokkrar tilraunir fór ég niður í Búlandstind og fékk hjá þeim geislaðan sjó,“ segir Birkir. Geislaður sjór þýðir að búið er að sótthreinsa sjóinn.
Hann segir að fyrst hafi hann viljað prófa sig áfram og gefa vinum og ættingjum. Þetta urðu jólagjafir og slíkt en svo fór þetta bara á fullt í mars. Ég er með þrjár gerðir af salti.Venjulegt salt, Birkisaltið og svo fjallasaltið,“ útskýrir Birkir.
Hann segist fylla 120 lítra tunnu af geisluðum sjó í hvert skipti og tvísigtar hann áður en hann fer í suðupottinn. Birkir sýður um 60 lítra í einu í 12 klukkustundir við 86° gráður. Úr því fær hann um 4,5 kíló af salti, eða um 80 krukkur.
Hann lætur ekki staðar numið við saltið því hann er líka að byrja með kryddsmjör. „Þegar ég var að bjóða mönnum að smakka saltið mitt þá gat ég ekki bara gefið þeim skeið með eintómu salti. Þannig að ég útbjó smá kryddsmjör til að hafa með söltunum. Svo fór fólk að spyrja mig hvenær þetta kæmi á markað. Þetta gerðist bara fyrir tilviljum. Fólk vildi kaupa þetta og þetta hefur bara verið rosalega vinsælt.“