Spennandi spurningakeppni Neista
Hin árlega spurningakeppni Ungmennafélagsins Neista á Djúpavogi hefur farið fram undanfarnar tvær vikur. Nú eru fjögur lið komin í úrslit eftir þrjár undankeppnir. Keppnin er liður í fjáröflun til áframhaldandi uppbyggingar íþróttastarfs á Djúpavogi. Frá þessu er greint á heimasíðu Djúpavogshrepps.
Allir áhugasamir gátu skráð lið til keppni. Liðin fjögur sem komin eru í úrslit eru Djúpavogshreppur, Baggi ehf. og Skákfélag Neista, sem komust áfram sem sigurvegarar sinna riðla en Leikskólinn komst áfram sem stigahæsta tapliðið.
Djúpavogshreppur sló út lið Hótels Framtíðar og Fiskeldi Austfjarða sló út Búlandstind á fyrsta keppniskvöldinu. Í úrslitum þess kvölds vann svo Djúpavogshreppur lið Fiskeldisins og komst þannig áfram.
Leikskólinn sló svo út Starfsfólk Grunnskólans á öðru keppniskvöldnu og Baggi ehf. sló út Við Voginn á sama kvöld. Baggi ehf. sigraði svo lið Leikskólans í undanúrslitum og komst þannig áfram.
Á þriðja kvöldi slógu Nemendur Grunnskólans 2 út Nemendur Grunnskólans 1 og Skákfélag Neista sló út Kvenfélagið. Skákfélagið sigraði svo Nemendur Grunnskólans 2 og komst því í úrslit áfram.
Eins og áður sagði var Leikskólinn stigahæsta tapliðið og komst því líka í úrslit.
Úrslitakvöldið fer fram á Hótel Framtíð laugardaginn 23. nóvember kl. 20:00 en nánari upplýsingar og myndir frá keppniskvöldunum má finna á heimasíðu Djupavogshrepps.
Frá einu spurningakvöldanna. Mynd: www.djupivogur.is