Spyr börnin í danskennslunni hvað amma þeirra heitir
Þrjátíu ár eru í haust liðin síðan Dansskóli Guðrúnar Smára í Neskaupstað tók til starfa. Guðrún hefur á þessum tíma kennt fleiri en einni kynslóð Austfirðinga að dansa og er enn að undir merkjum skólans.„Ég kenndi einu sinni í viku á svæðinu frá Neskaupstað til Stöðvarfjarðar og keyrði á milli. Síðan fór ég á aðra staði eins og Djúpavog og Breiðdalsvík og var þar í lengri tíma,“ segir Guðrún þegar hún rifjar upp fyrstu ár skólans.
Árið fyrir stofnun dansskólans hafði Guðrún lokið danskennaranámi frá Dansskóla Sigurðar Hákonarsonar. Hún var 18 ára þegar hún byrjaði að kenna Austfirðingum dans. Guðrún hefur á ríflega 35 ára starfsferli kennt Austfirðingum á öllum aldri að dansa. „Mér finnst þetta allt hafa elst mjög vel. Ég spyr börnin í dag hvað amma þeirra heiti,“ segir hún.
Starfsemi Dansskólans breyttist nokkuð fyrir um 15 árum þegar Guðrún var ráðin sem danskennari hjá Fjarðabyggð. Hún hefur þó kennt undir merkjum skólans utan sveitarfélagsins og sérstaka tíma, svo sem Súmba.
Hún hefur þó tekið sér frí frá dansinum að mestu í vetur því hún er umsjónarkennari í þriðja bekk Nesskóla. „Ég kenni mögulega dans þar fyrst ég vinn þar, annars kem ég aftur til starfa sem danskennari næsta haust.“
Guðrún við danskennslu snemma á ferlinum. Mynd: Austurland/HB