Stefán Ragnar ráðinn sem fyrsti flautuleikari hjá Metropolitan
Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir • Skrifað: .
Norðfirðingurinn Stefán Ragnar Höskuldsson hefur verið ráðinn fyrsti flautuleikari hljómsveitar Metropolitanóperunnar í New York. Óhætt er að fullyrða að um er að ræða eitthvert eftirsóknarverðasta flautuleikarstarf sem í boði er á heimsvísu.
Hundrað þreyttu prufuspil fyrir stöðu sólóflautuleikarans hjá Metropolitan í síðustu viku, en miklu fleiri sóttu um að fá að spreyta sig. Stefán hefur undanfarin fjögur ár spilað með hljómsveitinni sem annar flautuleikari. Hann hefur gripið inn sem fyrsti flautuleikari í afleysingum. Tveir slíkir spila að jafnaði með hljómsveitinni og auk Stefáns er Denis Bouriakov sólóflautuleikari.Stefán spilar nú í óperu Wagners, Tristan og Ísold, undir stjórn Daniels Barenboims. Einnig er á fjölunum Fordæming Fausts eftir Berlioz í stjórn James Levine, sem er listrænn stjórnandi óperuhússins og aðalstjórnandi hljómsveitarinnar.
Stefán fæddist í Neskaupstað árið 1975. Hann nam flautuleik frá átta ára aldri hjá Bernharði Wilkinson og útskrifaðist frá Tónlistarskóla Reykjavíkur sem einleikari árið 1995. Framhaldsnám stundaði Stefán við Royal Northern College of Music.
Morgunblaðið birtir í dag viðtal við Stefán.
Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.