Steinasafn Petru á Stöðvarfirði stækkar jafnt og þétt

Steinasafn Petru hefur löngum verið vinsæll áfangastaður ferðafólks á leið um Austurland. Safnið, sem fagnar 50 ára afmæli í ár, stækkar stöðugt því afkomendur Steina Petru hafa erft söfnunaráhugann.

Að öðrum ólöstuðum hafa fáir einstaklingar komið einu þorpi eða bæ jafn kyrfilega á kort ferðafólks og Ljósbjörg Petra María Sveinsdóttir gerði fyrir Stöðvarfjörð á meðan hún lifði. Það gerðist að mestu fyrir tilviljun því Steina Petra, eins og hún var gjarnan kölluð, safnaði forvitnilegum steinum allt sitt líf en það gerði hún sín vegna en ekki sérstaklega til að freista utanaðkomandi, þó það sé sannarlega raunin hin síðari ár.

Það var árið 1974, eftir fráfall eiginmanns hennar, sem Petra ákvað að opna heimil þeirra fyrir fólki sem vildi skoða steinana. Eftir að hún féll frá árið 2012 tóku afkomendur hennar við rekstri safnsins og þetta ár er hið fyrsta sem Unnur Sveinsdóttir, barnabarn hennar, tekur alfarið við stjórnartaumunum.

Horfa alltaf eftir forvitnilegum steinum


Einhver kynni að halda að stórt og merkilegt safn Steinu Petru hafi verið óbreytt frá því að hún settist í helgan stein fyrir andlát sitt en því fer fjarri. Eða eins og Unnur orðar það, þá eru engar líkur á að þau systkinin eða afkomendurnir haldi í göngu- eða fjallaferð án þess að hafa augun hjá sér ef forvitnilegir steinar verða á þeirra vegi.

„Það bætist reglulega við safnið okkar því nánast allir í fjölskyldunni eru með þessa sömu bakteríu. Flest okkar stunda einhverja útivist og það gengur enginn fram hjá fallegum steinum við þá iðju. Í safninu eru auðvitað þúsundir merkilegra steina og ég sjálf, sem er nánast alin upp í þessu safni, er enn að koma auga á nýja steina enn þann dag í dag. Það enn hægt að bæta við með góðri skipulagningu en auðvitað kemur að því að plássleysi geti orðið vandamál. En það er ekki enn orðið svo.“

Að sögn Unnar er mikið til sama sagan í Steinasafni Petru á Stöðvarfirði og á öðrum þekktum ferðamannastöðum Austurlands, þar sem aðsókn árið 2023 fór annaðhvort yfir eða langt með að ná þeim metfjölda ferðafólks sem um fjórðunginn ferðaðist árin 2018 og 2019. Henni telst til að gestafjöldinn í steinasafninu síðasta árið hafi verið í kringum tuttugu þúsund manns. Þá hefur tímabilið verið að lengjast og í fyrra var safnið opið fram í miðjan október.”

Trúin á orkuna í steinunum


Töluverður fjöldi fólks alls staðar í veröldinni trúir því að nærvera við kristalla og/eða sérstakar eða sjaldgæfar steinategundir geti haft jákvæð áhrif á andlega og jafnvel líkamlega þætti og þar með lækningarmætti í einhverjum tilfellum. Leiti fólk að slíku á miðlum á borð við YouTube finnast þúsund myndbönd um lækningarmátt eða heilun tiltekinna steinategunda. Unnur hefur ekki farið varhluta af slíku fólki í steinasafninu.

„Ég kannast sannarlega við það. Hingað kemur bókstaflega öll flóra fólks og allt frá harðkjarna vísindamönnum sem nánast ganga fyrir formúlum og svo hinu megin fólk sem nánast bugast af tilfinningasemi þegar það kemur hingað inn. Það fólk finnur strauma frá öðrum hverjum steini hér og ýmsir óska eftir sérstökum steini eða tegund í versluninni okkar, því það trúir því að það geri eitthvað gagn gegn sjúkdómum eða öðrum vandamálum sem á bjáta í lífinu.

Amma mín hafði sömu trú á þessu á sinni tíð, að steinar hefðu áhrif á sál og líkama. Það má ekki gera lítið úr því að mínu viti, því enginn annar en Albert Einstein hélt því fram á sínum tíma að allt væri orka. Hver veit hvaða áhrif mismunandi steinar geta haft á mismunandi fólk.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar