![](/images/stories/news/2016/stelpurokk.jpg)
Stelpurokk í Egilsbúð; „Eigum rosalega mikið af flottum kvenröddum“
Fyrri sýning tónlistarveislunnar Stelpurokk verður í Egilsbúð í Neskaupstað á laugardagskvöldið.
Rokkveislurnar í Neskaupstað hafa verið haldnar reglulega í rúma tvo áratugi og eru orðnar frægar um allt land. Í ár verður fókusinn settur á „stelpurokk“ þar sem frábærar austfirskar söngkonur syngja lög sem kynsystur þeirra hafa gert sígild.
Frábær veisla fyrir augu, eyru og bragðlaukana
Guðjón Birgir Jóhannsson er verkefnastjóri Rokkveislunnar.
„Farið hefur verið yfir ótrúlega margar tónlistarstefnur gegnum tíðina hjá okkur – country, soul, rokk, íslenska tónlist, diskó, kvikmyndatónlist, söngleikjatónlist og svo mætti lengi telja, enda hefur þessi veisla verið í gangi í rúm 20 ár.
Ákveðið var að vera aðeins með kvenflytjendur í ár þar sem við eigum rosalega mikið af flottum kvenröddum og við höfum sjaldan verið með eins mikið úrval laga og þegar þessi stefna var ákveðin, það er eitthvað fyrir alla,“ segir Guðjón Birgir sem segist lofa frábærri veislu fyrir augu, eyru og auðvitað bragðlaukana í Egilsbúð.
Seinni sýningin verður laugardagskvöldið 19. mars. Nánari upplýsingar má sjá á Facebook-síðu Rokkveislunnar.