Stílistinn Olga Einars: „Besta ráðið er að vera þú sjálfur“

 Olga Einarsdóttir frá Egilsstöðum er starfandi stílisti og ráðleggur fólki hvernig nýta megi fötin í skápnum betur.

Olga lærði í Image House í London 2004, en þar bjó hún ásamt manni sínum Brynjari Birni Gunnarssyni og dætrum þeirra.

Olga kemur úr stórum systkinahópi og á hennar æskuheimili var allt heimasaumað og hver einasta króna nýtt að fullu.

„Ég hef alla tíð verið flink að breyta, laga og raða saman fötum og fara vel með peninginn. Eftir að ég flutti út var ég alltaf að versla föt fyrir aðra og senda heim. Mér fannst það mjög skemmtilegt og ákvað því að læra eitthvað sem gæti veitt mér tækifæri til þess að vinna bara við þetta,“ segir Olga.

 


Byrjar heima hjá viðskiptavinunum

Eftir námið hóf Olga að vinna við fagið úti í England en hún flutti svo til Íslands árið 2011.

„Meðan ég starfaði í Englandi fór ég mestmegnis með mína viðskiptavini í bæinn og hjálpaði þeim að versla föt við hæfi. Aðalbreytingin sem hefur orðið á mínu starfi síðan ég flutti til Íslands er að núna vil ég alltaf byrja á því að fara heim til viðkomandi og kíkja í skápinn.

Þar fer ég yfir liti, snið, hverju má breyta og laga til þess að nýta það sem til er. Það kemur fólki oftast skemmtilega á óvart að ætlun mín er alls ekki að henda öllu út heldur þvert á móti að vinna með það sem til er, auk þess að koma með tillögur um hvað mætti kaupa til viðbótar og eiga þá fataskáp sem virkar 100%. Með því að vinna þetta svona minnkar hættan á því að sömu mistökin séu endurtekin aftur og aftur.

Ég tek oft á móti konum utan af landi og þær koma þá gjarnan með fulla tösku af fötum sem við förum yfir.

Ég er ekki aðeins með einstaklingsráðgjöf, heldur fæ ég líka hópa, eins og vinnustaðahópa og saumaklúbba. Ég hvet konurnar til þess að vera góðar hverja við aðra og hrósa, í stað þess að öfundast út í næsta mann, en hrós er eins og vítamín fyrir sálina.

Persónulega finnst mér miklu skemmtilegra að vinna þetta svona en ég gerði í Englandi, mér finnst ekkert eins gefandi og gaman og að taka flík sem til er og gefa henni nýtt líf, hvort sem það er kjóll sem verður toppur eða pils sem verður púði.“


Notum aðeins 20% af þeim fötum sem við eigum í skápnum

Olga segir fólk almennt aðeins nota brot af þeim fötum sem það á til í fataskápnum sínum.

„Ég er heldur kannski ekki þessi hefðbundi stílisti, er líklega svolítið sveitó. Kannanir hafa sýnt fram á að við nýtum aðeins 20% af þeim flíkum sem við eigum, 80% tímans, en það breytist þegar ég er búin að koma í heimsókn. Það er mun betra að eiga færri flíkur og nota þær allar en stóran skáp, fullan af fötum, sem aldrei eru nýtt. Það er því bæði tíma- og peningasparnaður að bóka mig.“

Olga segir fólk eyða minna í föt í dag en áður. „Það verður sífellt algengara að konur kaupi notuð föt, bæði af sölusíðum á Facebook, sem og í Rauða krossinum og Kolaportinu.

Ég var til dæmis með námskeið á Djúpavogi þar sem við fórum í Rauða krossinn, breyttum fötum og héldum svo tískusýningu. Salan hefur aldrei verið meiri í búðinni en eftir hana.

Þetta er samt svolítið „walk the talk“ – ég er mjög dugleg að breyta mínum fötum og það á alveg eins við um skó eins og hvað annað. En, maður verður svo að ganga í því sem maður er að breyta til þess að skapa jákvæða ímynd.“


Gott að nýta útsölur í að kaupa dýrari hluti

Nú eru janúarútsölurnar hafnar og Olga segir þetta góðan tíma til þess að fara yfir skápinn og íhuga hvort vert sé að gera áherslubreytingar á nýju ári. Hún gefur hér nokkur útsöluráð:

1. Ekki kaupa eitthvað á útsölu bara af því það er á útsölu!

2. Áður en þú ferð á útsölur, farðu þá yfir hvað þig vantar.

3. Útsölur eru góðar til að kaupa dýra hluti, svo sem yfirhafnir, skó eða veski.

4. Vertu viss að það sem þú kaupir munir þú nota oftar en einu sinni.

„Allra, allra besta ráðið sem ég get gefið inn í nýtt ár og alltaf, er að vera þú sjálfur í stað þess að reyna að klæða þig eins og vinkona eða einhver annar. Við erum svo áhrifagjörn en mín reynsla er sú, að eftir að við höfum hreinsað út úr skápum, þá standa eftir þær flíkur sem okkur sjálfum þykja fallegar, ekki það sem einhver annar taldi okkur trú um að væri fallegt,“ segir Olga að lokum.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar