Ístölt Austurland 2009 í hjarta Egilsstaða

Ístölt Austurland 2009 verður haldið í hjarta Egilsstaða þann 21. febrúar næstkomandi, nánar tiltekið í Egilsstaðavíkinni við Gistihúsið Egilsstöðum.

hans_kjerulf_og_jupiter1.jpg

Seinast var keppnin haldin í Egilsstaðavík árið 2005 og þótti ákaflega vel heppnuð. Vegna skorts á ís hefur keppnin verið haldin á Eiðavatni undanfarin ár, í ekki síðri náttúru. Það er óhætt að segja að slegið verði upp veislu mannlífs, hesta og náttúru í Egilsstaðavíkinni.

Eins og áður hafa skráð sig til leiks sumir af sterkustu knöpum landsins með gæðinga sína. Heimamenn hafa því miður þurft að lúta í lægra haldi fyrir aðkomumönnum undanfarin ár. Konungur austfirskra knapa, Hans Kjerúlf, hefur þó haldið merki heimamanna á lofti og endað í öðru sæti fjögur undanfarin ár í tölti. Í ár virðast Freyfaxamenn fyrirfram vera nokkuð sterkir og fleiri góð hross en oft áður virðast vera á járnum hjá heimamönnum. Þeir munu því reyna að koma í veg fyrir að Ormsbikarinn eftirsótti fari frá fjórðungnum, en þessi víðfrægi farandgripur hefur lítið tollað í héraði frá því hann var smíðaður.

Í tengslum við Ístölt Austurland er unnin sjónvarpsþáttur sem Hestafréttir.is framleiða fyrir Freyfaxa. Það eru fyrirtækin Alcoa, Austfar, Fóðurblandan og Hrossabúið Tjarnarland sem hafa gert framleiðslu þáttarins mögulega með stuðningi sínum. Þátturinn verður öllum aðgengilegur á vefsjónvarpi Hestafrétta. Auk þess sjá Hestafréttir um ljósmyndun á mótinu, en margar af betri hestaljósmyndum síðustu ára hafa orðið til á Ístölti Austurlands.

Mót sem þetta verður ekki haldið nema með myndarlegum stuðningi fyrirtækja á svæðinu. Eins og undanfarin ár standa fyrirtækin vel að baki mótinu, jafnvel þótt hart sé í ári. Nánari upplýsingar um mótið er að finna á www.freyfaxi.net

 

Allar frekari upplýsingar er hægt að nálgast í síma 896-5513

(Mynd: Hans Kjerúlf á Júpiter)

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar