Stofna hjólaverkstæði til að safna fyrir sumarbúðum

Hjólreiðaáhugamennirnir Bergur Kári Ásgrímsson og Steinar Óskarsson og stofnuði í vikunni hjólaverkstæði á Reyðarfirði. Strákarnir eru 10 og 12 ára og vilja safna fyrir ferð í sérstakar hjólreiðasumarbúðir í Bandaríkjunum.

Til stendur að hafa verkstæðið opið á eftir skóla á þriðjudögum og miðvikudögum í vetur. Strákarnir segjast ekki hafa áhyggjur af því að það verði erfitt að taka tíma frá leik til að vinna á verkstæði. „Nei, af því að þetta er skemmtilegt.“ segir Bergur og Steinar tekur undir „Hugmyndin er líka til þess að hafa gaman í vetur að gera við hjól, ekki bara til þess að safna.“

Strákarnir hafa horft mikið á hjólamyndbönd á youtube og þar fundu þeir hjóla-sumarbúðirnar í Bandaríkjunum sem þá langar að safna fyrir. „Þetta eru sumarbúðir fyrir krakka sem heita woodward. Við fundum þetta á youtube, ef maður skrifar woodward þá koma allskonar myndbönd af krökkum á hlaupahjólum, brettum og svoleiðis,“ segir Bergur.

Strákarnir leika sér líka mikið á alskonar hjólum og hafa í gegnum það lært að gera við. „Ég hef oft verið að taka dekk af til dæmis af því að ég hef verið mikið að spóla og sprengja dekk,“ segir Steinar.

Fyrsti viðskiptavinurinn kom á verkstæðið í gær. „Já við fengum eitt hlaupahjól, það var bekkjarbróðir minn hann Einar sem kom með það.“ segir Bergur Kári.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar