Stuðningur í kreppunni

Stefnt er að því að upplýsingabæklingur, um ýmis atriði sem tengjast efnahagsþrengingum íslensku þjóðarinnar, frá AFLi starfsgreinafélagi fari í dreifingu inn á öll heimili í fyrramálið. Félagsþjónustur sveitarfélaganna og félagsmálaráðuneytið styðja einnig við fólk sem á erfitt vegna kreppunnar.

 

Félagið hefur seinustu daga komið upplýsingum á framfæri til félagsmanna sinna vegna efnahagskreppunnar. Inni á vef þess, www.asa.is , eru bæklingar frá lögfræðisvæði Alþýðusambands Íslands. Þar er meðal annars fjallað um uppsagnir, ákvæði laga og kjarasamninga við uppsagnarferil, hópuppsagnir, ábyrgð á innistæðum og útskýrður munur á mismunandi tegundum innlánsreikninga.

Heilsugæslan í Fjarðabyggð, félagsþjónusta Fjarðabyggðar og sóknarprestar hafa komið upp aðstoð fyrir þá sem eiga erfitt í efnahagskreppunni. Boðið er upp á viðtöl, þriðjudaga og föstudaga milli kl. 15 og 16 í Safnaðarheimilinu á Reyðarfirði. Tímapantanir eru á heilsugæslustöðinni á Eskifirði í síma 470 1430. Hægt er að hringja í vakthafandi lækni í síma 856 9300 utan dagvinnutíma ef á þarf að halda.

Hjá félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs stendur íbúum Vopnafjarðarhrepps, Borgarfjarðarhreps, Seyðisfjarðarkaupstaðar, Fljótsdalshrepps og Djúpavogshrepps til boða sálræn stuðningsviðtöl. Þau er hægt að panta í síma 4 700 705.

Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur sett á fót samræmt þjónustu- og upplýsinganet vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði, sem felur í sér nýtt vefsvæði, grænt símanúmer, fyrirspurnalínu og netspjall. Símtöl í 800-1190 eru endurgjaldslaus en nánari upplýsingar um þjónustuna má finna á http://www.felagsmalaraduneyti.is/upplysingar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar