Styrkleikar Krabbameinsfélagsins aftur haldnir á Egilsstöðum
Svokallaðir Styrkleikar Krabbameinsfélagsins verða haldnir á Vilhjálmsvelli á Egilsstöðum í lok ágústmánaðar og verður það í annað skipti í röð sem leikarnir fara fram þar. Ástæðan fyrst og fremst hversu vel gekk í fyrra.
Styrkleikarnir sjálfir er nokkurs konar boðganga, eða boðhlaup eftir atvikum, sem stendur samfleytt í 24 stundir og eiga að vera táknrænir fyrir að enginn fær hvíld frá krabbameini á neinum tíma sólarhringsins. Minnst einn úr hverju liði sem skráir sig til þátttöku þarf að vera á hreyfingu allan þann sólarhring. Heita má á lið eða einstaklinga á meðan þessu stendur og allur ágóði af leikunum fer rakleitt til Krabbameinsfélags Íslands.
Að sögn Kristjönu Sigurðardóttur, formanns Krabbameinsfélags Austurlands, þótti takast það frábærlega upp á síðasta ári að samkomulag tókst um að endurtaka leikinn austanlands þetta árið. Það verður samt ein stór breyting á leikunum nú að hennar sögn.
„Styrkleikarnir eru auðvitað í grunninn til að safna styrkjum fyrir Krabbameinsfélagið og krabbameinsfélög alls staðar í landinu og í fyrra var svona megin áherslan á þann þátt. En nú hefur verið tekin sú ákvörðun að leggja minni vigt á fjáröflunarþáttinn og nýta stundina meira til þess eins að vera saman, eiga ljúfa stund og minnast þeirra sem fallið hafa frá vegna krabbameins en ekki síður allra sem glíma við það í dag.“
Kristjana sjálf verður meyr aðspurð um hvernig til tókst síðast en andinn og samstaða allra á þeim leikum var nokkuð sem hún gleymir aldrei.
„Sú hátíð stendur enn ljóslifandi í mínum huga því svo margir tóku þátt og hjálpuðu okkur til að þetta ævintýri allt gæti orðið að veruleika. Ég fæ enn í dag gæsahúð að hugsa til ljósahátíðarinnar þegar fólk skrifaði krabbameinssjúkum ættingjum eða vinum eða þeim sem fallnir eru frá vegna sjúkdómsins skilaboð út í tómið.“
Eins og gefur að skilja er meira en að segja að halda slíka leika og hafa bæði krabbameinsfélögin á Austurlandi óskað eftir sjálfboðaliðum til að gera leikana eins vel úr garði og mögulegt er. Tókst það framar vonum á síðasta ári þegar fjölmörg félagasamtök hjálpuðu til. Kristjana vonar að það sama verði uppi á teningnum nú.
Frá Styrkleikunum á Egilsstöðum í fyrra. Þar söfnuðust rúmlega sex milljónir króna til baráttunnar gegn krabbameini. Mynd Styrkleikarnir.