Skip to main content

SÚN býður í skötuveislu í tilefni stórafmælis

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. des 2022 09:43Uppfært 22. des 2022 09:45

Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað (SÚN) býður Norðfirðingum í skötuveislu á morgun í tilefni þess að félagið er 90 ára í ár.


„Við höfum gert ýmislegt í tilefni afmælisins og þar sem árið er senn liðið er síðasti séns á að gera eitthvað.

Okkur langaði að gera eitthvað öðruvísi og ákváðum því að halda skötuveislu,“ segir Guðmundur R. Gíslason, framkvæmdastjóri SÚN.

Veislan verður á Hótel Hildibrand og er búist við það mikilli aðsókn að skipt er upp í tímasett holl. Hægt er að nálgast miða í veisluna á hótelinu. Auk skötunnar verður saltfiskur og plokkfiskur á boðstólunum.

Guðmundur segir ríka hefð fyrir skötu í Neskaupstað á Þorláksmessu. „Í gegnum tíðina hafa verið vel sótt skötuhlaðborð á veitingastöðum bæjarins. Síðan hefur verið skata á ákveðnum vinnustöðum.“

En hvað finnst honum sjálfum um skötuna? „Mér finnst hún mjög góð. Ég lærði að borða hana þegar ég var veitingamaður í Egilsbúð. Þá var ekki annað hægt en að láta sig hafa hana.“