![](/images/stories/news/2016/SvandisEgils.jpg)
Svandís Egils: Er bara Austfirðingur og þarf ekkert að fara nákvæmar í það
Svandís er nýráðinn skólastjóri á Seyðisfirði og lætur því af störfum sem skólastjóri á Borgarfirði eystra þar sem hún hefur starfað undanfarin ár. Hún segist hlakka til nýrra áskorana á Seyðisfirði eftir tíma á Borgarfirði sem hafi verið gefandi en á köflum erfiður.
„Þetta hefur verið ótrúlega lærdómsríkt og gefandi en líka erfitt. Kannski af því að þetta er lítið samfélag og örugglega líka af því að ég var að klára meistararitgerð fyrsta árið. Þá var ég ekki mikið út á við og gerði ekki mikið annað. Ég fór ekki strax í kirkjukórinn og var ekki virk í slysavarnarfélaginu. Ég hefði viljað geta gefið meiri tíma í upphafi til þess að ná fyrr góðum tengslum við fólkið hérna,“ segir Svandís í samtali við Austurgluggann sem kemur út í dag.
Svandís segir að sér þyki mjög vænt um Borgarfjörð og fólkið á staðnum „Mér finnst ég alveg vera í góðum tengslum við fólkið hérna núna. Mér þykir mjög vænt um staðinn og um fólkið, Borgfirðingar eru náttúrulega stórskrítið fólk, eins og allir vita,“ segir hún og hlær en verður fljótt alvörugefin aftur. „Samfélagið hefur þurft að glíma við allskonar áföll. Það er náttúrulega svakalegt hvernig lífið var hérna, með sjómenn sem voru meira og minna í burtu, fólk háði harða lífsbaráttu. Sagan sem er hérna er mjög merkileg.“
Svandís er spennt að hefja nýjan kafla á Seyðisfirði og segir þau fjölskylduna hlakka til að kynnast fólkinu þar. „Ég fór á málþing á Seyðisfjörð um daginn um sjálfbærni. Það er svo gott að taka þátt í umræðu sem er í takt við mans eigin hugmyndir um hvað er mikilvægt. Og það er gott að sú umræða sé í gangi þar sem maður er annars verður maður svolítið einn á báti.“
Svandís segist þó ekki vera alfarin frá Borgarfirði. „Helgi er auðvitað héðan og mér finnst ég líka alveg vera orðin pínulítið héðan. Ég held samt að ég sé bara orðin Austfirðingur. En bara Austfirðingur og það þarf ekkert að fara nákvæmar í það.“