Sveinbjörn til Grindavíkur

Knattspyrnumaðurinn Sveinbjörn Jónasson er genginn til liðs við úrvalsdeildarlið Grindavíkur. Sveinbjörn, sem er á 23ja aldursári, gerði þriggja ára samning við Grindavík.

 

Image„Mér leist vel á aðstæður og allt í kringum félagið, jafnt strákana í liðinu sem boltann sem þjálfarinn (Milan Stefán Jankovic) ætlar að spila,“ sagði Sveinbjörn í samtali við Austurgluggann í morgun. „Maður verður að sjá hvar maður stendur og það verður gaman að spreyta sig á meðal þeirra bestu.“
Sveinbjörn er alinn upp hjá Huginn á Seyðisfirði en gekk til liðs við Fjarðabyggð fyrir seinustu leiktíð. Hann skoraði 14 mörk með liðinu og var valinn besti leikmaður sumarsins. Í kjölfarið sýndu mörg úrvalsdeildarfélög honum áhuga og hann æfði með nokkrum, þar á meðal Grindavík, enda í námi í Reykjavík. Fyrir jól var greint frá því í fjölmiðlum að Sveinbjörn væri genginn til liðs við Grindavíkur en það var borið til baka þar sem ekki var komið samkomulag milli KFF og Grindavíkur. Það samkomulag mun nú vera í höfn og Sveinbjörn skrifaði undir samning við Grindavík í gær.

Sveinbjörn er annar Austfirðingurinn sem semur við Grindavík í vikunni en í byrjun vikunnar gerði Hattarmaðurinn Óttar Steinn Magnússon þriggja ára samning við félagið. Hann er þegar sestur að í Grindavík en að því er fram kemur á hottur.tk verður hann líklega lánaður austur í sumar. Tveir fyrrverandi leikmenn Hattar eru hjá Grindavík, Aljosa Gluhovic fór þangað í fyrrasumar og Eysteinn Hauksson hefur verið þar í nokkur ár.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar