Sviðslistaverk um manninn í náttúrunni og náttúruna í manninum
Sviðslistaverkið Skarfur verður frumsýnt á Seyðisfirði á föstudagskvöld. Kolbeinn Arnbjörnsson stendur á sviðinu í hlutverki manns sem leitar til náttúrunnar eftir að hafa misst fótanna í lífinu. Að baki Kolbeini standa eiginkona hans, Katla Rut Pétursdóttir, og leikstjórinn Pétur Ármannsson.„Verkið byrjaði sem hugmynd í kollinum á mér. Það er um mann sem hefur týnt sjálfum sér og því sem máli skiptir í lífinu. Konan og börnin eru farin frá honum og honum finnst það vera sín köllun í lífinu að tengjast náttúrunni. Hann rænir eigin börnum til að reyna að kenna þeim hin sönnu gildi lífsins,“ segir Kolbeinn.
Æfingar á verkinu hófust í nóvember, hlé var tekið í desember en þeim framhaldið í janúar. Þróun verksins hefur haldið áfram í gegnum æfingaferlið.
„Ég hef ekki bara spurt Kolbein hví hann vilji segja söguna, heldur af hverju hann vilji gera það á sviði og hvernig hún rími við leikhúsformið. Sköpunarferli okkar undanfarna þrjá mánuði hefur verið að finna sögunni og efnistökum hennar sterk form fyrir sviðið og nálgun Kolbeins á verkið sem flytjanda,“ segir Pétur.
„Það getur verið erfitt að standa einn á sviði og lýsa framvindu heillar fjölskyldu á sviði án þess að það hljómi eins og maður að lýsa bíómynd sem hann sá. Þar kemur Pétur inn því hann hefur hæfileika til að finna spennandi og óvænt sjónarhorn á verkið,“ segir Kolbeinn.
Einhverjum kann að virðast það háleitt markmið að setja upp frumsaminn einleik í tæplega 700 manna sjávarplássi á landsbyggðinni um hávetur. Þremenningarnir segja tækifæri felast í umhverfinu og benda á iðandi menningarlíf á Seyðisfirði um þessar mundir.
„Það er alltaf svo mikið að gerast á sumrin að fólk kemst ekki yfir það allt. Hví ekki að sinna heimamönnum og bjóða upp á framsækna list í febrúarmánuði? Við erum þegar búin að selja töluvert af miðum,“ segir Katla.
Tvær sýningar verða um helgina en síðan kemur hlé á meðan hátíðin List í ljósi verður haldin. Þá verða menningarverðlaun landsbyggðarinnar, Eyrarrósin, afhent á Seyðisfirði um það leyti því hátíðin vann þau í fyrra. „Það er ekki eins og við séum eyland hér í febrúar. Við lítum á þetta sem lúxusvandamál,“ segir Katla.
Eftir fyrstu sýningarnar á Seyðisfirði liggur leið Skarfs í Þjóðleikhúsið. Hvað tekur við þá er óráðið en þau hafa hug á að koma aftur austur með sýninguna og fara með hana víðar. „Okkur langar að fara um Austfirðina og eins norður. Þetta er spurning um samtal og rekstrargrundvöll. Við spennum bogann hátt og erum samtaka,“ segir Katla.