Sýnir ljósmyndir í Vallanesi

Jón Guðmundsson, sem mörgum Austfirðingum er af góðu kunnur eftir áralöng störf við kennslu á Héraði, sýnir um þessar mundir ljósmyndir í Vallanesskirkju. Myndirnar tók Jón í og við kirkjuna sem hann segir sér afar kæra.

Jón segir að fyrstu kynni hans af kirkjunni hafi verið árið 1988. „Ég gekk þá til liðs við kór kirkjunnar sem var undir stjórn Árna Ísleifssonar. Fyrsta aðkoman er minnisstæð því þegar við komum að hafði kirkjuhurðin ekki fallið að stöfum þegar gengið var um hana síðast og fyrstu mínúturnar í kirkjunni fóru því í að leita eftir músum, ef einhverjar hefðu nýtt tækifærið og laumast inn. Þá komst ég að því að stútungskallar á Völlum væru ekki lausir við að vera hræddir við mýs, því þeir fóru margir í að girða buxnaskálmarnar ofan í sokkana.“

 

Vill fanga form og liti

Jón er flautuleikari og hefur margoft verið einn í kirkjunni við æfingar þegar hann hefur dvalist í Vallanesi, sem hann reynir að gera reglulega eftir að hann flutti af svæðinu. „Mér hefur alltaf þótt kirkjan mjög hlýleg og yfir henni hvílir helgi og friður. Fyrir þó nokkuð mörgum árum var hún endurbætt og eftir það varð hún enn magnaðri í mínum huga. Svo gerðist það eitt sinn um mitt sumar er ég var við æfingar eldsnemma að morgni að ég leit upp úr nótunum og þá blöstu við mér alls kyns form og litir. Svo ég greip símann minn og tók myndir. Síðan hef ég tekið hundruð mynda í kirkjunni og reynt að fanga þessa sérstöku stemmingu sem myndast í þögninni.“

Jón tekur allar myndirnar á iPhone 6 en naut síðan aðstoðar frá Myndsmiðjunni á Egilsstöðum við að vinna myndirnar og prenta til sýningar.

Sýning Jóns var formlega opnuð við guðsþjónustu í Vallaneskirkju síðastliðinn sunnudag. Myndirnar munu hanga uppi í kirkjunni fram eftir sumri og er gestum og gangandi boðið að kíkja við í kirkjunni og virða þær fyrir sér.

 

Víða lesinn en varla þekktur

Jón er nú búsettur á höfuðborgarsvæðinu og sinnir kennslu í flautuleik á Seltjarnarnesi og í Mosfellsbæ. Hann er síðan einnig með fleiri járn í eldinum en innan skamms mun koma út eftir hann ný barnabók sem nefnist Flugvélar. „Ég grínast reyndar stundum með það að ég sé líklega einn víðlesnasti barnabókahöfundur á Íslandi en líka sá minnst þekkti. Þannig er að ég hef fengið að skrifa bækur ætlaðar börnum sem gefnar hafa verið út til kennslu og lesnar í skólum. Þannig lesa mörg börn bækur eftir mig án þess að heyra nokkurn tíma minnst á höfundinn.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar