![](/images/stories/news/folk/Hrönn_Hjálmarsdóttir.jpg)
Það er ekki nóg að vita, við verðum að vilja
Stór hluti landsmanna strengir heit um betra líf hver áramót, ýmist stór eða smá, sem oftar en ekki snúa að bættri heilsu á einhvern hátt. Einhverjir vinna vel að sínum markmiðum og uppskera eftir því en margir gefast upp og gleyma öllu saman. Heilsumarkþjálfinn Hrönn Hjálmarsdóttir frá Neskaupstað segir að ekki sé nóg að búa yfir vitneskju um hvað reynist best heldur sé viljastyrkurinn helsta vopnið.
Hrönn er einnig með B.Sc í rekstrarfræði og er búsett í Hafnarfirði ásamt fjölskyldu sinni og starfar í heilsudeild Artasan ehf.
„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á mat og matargerð sem með árunum hefur beinst meira að hollustu og því hvernig við getum jafnvel forðast eða læknast af ýmsum sjúkdómum með því að láta matinn vera lyfin okkar,“ segir Hrönn sem fór að grúska í þessum fræðum í Þýskalandi þar sem hún bjó í sjö ár og lærði grunninn að almennri næringarfræði og í kjölfarið heilsumarkþjálfun.
„Heilsumarkþjálfun er í raun heildræn næringarfræði þar sem gengið er út frá því að næring sé ekki bara fólgin í matnum okkar heldur mörgum öðrum þáttum sem hafa áhrif á okkur og við verðum að læra að hafa stjórn á. Félagslegir þættir, andleg næring og líðan er ekki síður mikilvæg, því til þess að halda okkur heilbrigðum þurfum við að vera í jafnvægi og okkur þarf að líða vel, bæði líkamlega og andlega.“
Byrjum á því að henda sykrinum
Ef markmiðið er að bæta mataræðið segir Hrönn að fyrsta skrefið að því sé að taka út sykur að mestu, og byrja þá á að sleppa sætum drykkjum.
„Líkaminn er nokkra daga að ná sér úr þeirri vímu, en svo má taka út allan sýnilegan sykur í framhaldinu. Bara þetta fleytir okkur ansi langt. Við þekkjum svo öll þessi gullnu gildi eins og að sleppa unnum matvörum, borða hreina fæðu og elda frá grunni. Ef við fylgjum svo þessum örfáu punktum þá kemur þetta allt saman:
• Borðum reglulega.
• Veljum hreina fæðu.
• Eldum frá grunni og tyggjum vel.
• Setjum einu sinni á diskinn og ekki hafa matardiskana mjög stóra.
• Drekkum nóg af vatni.
• Hreyfum okkur a.m.k. 30 mínútur á dag.
• Förum snemma í rúmið og pössum alltaf að sofa nóg.
• Ekki eiga óhollustu uppi í skáp.
• Forðumst streitu.
• Ræktum sálina (samverustundir með fjölskyldu og vinum t.d.).
• Munum að ef við dettum, þá stöndum við bara upp.
• Einn dag í viku má leyfa sér, þá meina ég EINN.
• Ekki láta vigtina stjórna hvernig þér líður svo ekki byrja daginn á henni.
Lítil skref og eitt í einu
Hrönn segir best að beita skynsemi við alla markmiðasetningu og mikilvægt sé að taka lítil skref sem séu vænlegri til árangurs en ef á að hjóla í hlutina með offorsi.
„Slíkt er dæmt til að mistakast því við erum ekkert nema vaninn og eigum erfitt með að halda út ef mörgu er breytt í einu. Rannsóknir hafa sýnt að þegar við tökum upp nýja hegðun þá tekur það allt að 63 dögum að gera hana að vana.
Staðreyndin er sú að flest okkar vita upp á hár hvað á að gera en málið er að við þurfum að hafa vilja til þess að breyta og viljastyrkur er eitthvað sem við eigum flest erfitt með. Einmitt þess vegna er svo mikilvægt að setja sér markmið sem hægt er að ráða við. Það eru freistingar úti um allt og mikilvægt að taka einn dag í einu því það er algengt að fólki líði eins og endalokin séu í nánd. Í raun er bara fíknin í okkur að tala og hugurinn að streitast á móti breytingunum. Svo er alveg grundvallaratriði að meltingin sé heilbrigð því ef þarmaflóran og klósettferðirnar eru ekki í lagi þá verður árangurinn ekki sem skyldi.
Eftir að hafa upplifað hjá mér sjálfri og séð hjá öðrum hversu mikið mataræði, hreyfing og almennt jafnvægi í lífinu hefur að segja, þá er ég þess fullviss að þetta sé sá stígur sem við verðum að reyna að feta í lífinu í þeirri von að lifa lengur, heilbrigð á sál og líkama í sátt við okkur sjálf og umhverfið.
Þetta er allt að langstærstum hluta undir okkur sjálfum komið – það getur enginn annar gert þetta fyrir okkur. Munum að það er mun betra að finna sér tíma til að lifa heilbrigðu lífi heldur en að þurfa að eyða tíma í að vera veikur síðar.“