Tækninýjunar í anda skáldsins

„Stóri draumurinn er að gestir geti farið á minjasvæðið hér að neðan Gunnarshús, gengið um rústirnar og á sama tíma verið að horfa á veggina og innviðina í þessum byggingum gegnum sýndarveruleika. Enn eru ákveðnir tækniörðugleikar sem hindra það leysast vonandi á næstu árum,” segir Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri. Að austan á N4 heimsótti Skriðuklaustur á dögunum.



„Við getum sagt að þrjár meginstoðir séu í starfseminni hér á staðnum. Það er auðvitað Gunnar sjálfur með sín verk og þetta einstaka hús sem hann byggði hér árið 1939. Þá er það klausturssagan, þessi stóra og mikla saga miðaldaklaustursins sem var grafið hér upp á árunum 2000-2012, en í sambandi við hana höfum við verið að vinna að nokkrum nýjungum. Þriðja stóra stoðin er Skriðuklaustur sem ferðamannastaður, þá veitingarnar ekki síst, því það þarf að vera hægt að metta bæði huga og maga á góðum áfangastað,” segir Skúli Björn.

Sýndarveruleiki bættist við sýninguna á Skriðuklaustri síðastliðið sumar. „Hún snýst um að miðla menningararfinum með nýjum hætti, bæði því sem er innanhúss og utanhúss. Við erum að vinna með klausturminjarnar, að endurgera þessar byggingar sem stóðu hér fyrir 500 árum í sýndarveruleika, en við munum vinna að því að þróa hann enn frekar.

Þetta er ekki bara skemmtilegt að geta brugðist sér til fortíðar og gengið inn í gamlar byggingar, heldur er þetta stór þáttur í því að vinna með þær upplýsingar sem komu út úr fornleifarannsókninni og sömuleiðis þær skriflegu heimildir sem við höfum,” segir Skúli Björn.


Gunnar nýjungagjarn og horfði fram á við
Skúli Björn segir að tækninýjungarnar á staðnum séu í anda skáldsins. „Síðasta ritvélin hans var IBM frá 1970 sem hann hamraði á síðustu árin. Við segjum það nú stundum í leiðsögninni um húsið; ef tölvurnar hefðu verið svolítið meðfærilegri þarna hefði hann örugglega fjárfest í einni slíkri, hann var nýjungagjarn og horfði fram á við í sínum skrifum.”

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar