Tæpar tvær milljónir söfnuðust í Styrkleikunum
Tæpar tvær milljónir söfnuðust í Styrkleikunum, áheitagöngu sem gengin er í sólarhring til styrktar Krabbameinsfélagi Íslands, á Vilhjálmsvelli um helgina. Framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Austfjarða segir helgina hafa tekist afar vel.„Við erum í skýjunum. Veðrið var gott og ég held að allir hafi fundið þennan samtakamátt og samstöðu sem Styrkleikarnir ganga út á,“ segir Hrefna Eyþórsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Austfjarða.
Styrkleikarnir eru boðhlaup þar sem lið ganga með boðhlaupskefli og keppast við að halda því gangandi í heilan sólarhring, í þessu tilfelli frá hádegi á laugardegi til hádegis á sunnudegi. Gengið er í gegnum nóttina til að minna á að krabbamein tekur sér aldrei frí.
Að þessu sinni voru liðin fjögur og í þeim um 500 manns sem gengu tæplega 4.800 kílómetra. Tæpar tvær milljónir söfnuðust með áheitum sem renna í sjóði Krabbameinsfélags Íslands, sem aðildarfélög þess um allt land sækja í. Krabbameinsfélag Austfjarða og Krabbameinsfélag Austurlands voru gestgjafar Styrkleikananna á Vilhjálmsvelli.
Styrkleikarnir eru haldnir að alþjóðlegri fyrirmynd en þetta eru þeir fjórðu sem haldnir eru á Íslandi. Þeir fyrstu voru á Selfossi árið 2022, í fyrra var gengið aftur þar en líka á Egilsstöðum. Um næstu helgi verður síðan gengið í Reykjanesbæ.
Hrefna segir verið að skoða hvort leikarnir verði haldnir aftur eystra að ári eða hvort þeir dreifist víðar um landið. Hún segir leikana henta vel utan allra stærstu byggðarkjarna landsins. „Í litlu bæjarfélögunum myndast ákveðin samstaða þar sem allir þekkja alla og vita hverjir standa í baráttunni.
Þótt við séum stundum langt frá heilbrigðisþjónustunni þá býr styrkleiki okkar í samfélaginu þar sem allir eru tilbúnir að hjálpa og halda utan um aðra. Þar bregðumst við við á sama hátt og í öðrum áföllum sem samfélögin okkar hafa orðið fyrir.“