Takk fyrir árin 36 sem ég fékk að vera í bókasafninu: Byrjaði undir sviðinu í Valaskjálf

Bókasafn Héraðsbúa fagnar í ár 60 ára afmæli sínu og því að 20 ár eru síðan það flutti í núverandi húsnæði í Safnahúsinu á Egilsstöðum. Kristrún Jónasdóttir, sem margir þekkja sem Dúrru, rifjaði upp vegferð sína með safninu þar sem hún var bókavörður í 36 ár á afmælisfögnuði fyrir skemmstu.


Þegar Dúrra byrjaði að vinna á safninu var það í tveimur herbergjum undir sviðinu í Valaskjálf. „Það var gengið inn í gegnum ruslageymslu.“

Starfið fékk hún í gegnum Jón Kristjánsson, síðar þingmann, sem var þá formaður bókasafnsstjórnarinnar en þau störfuðu saman í Leikfélagi Fljótsdalshéraðs.

„Við vorum í leikhússtússi þegar hann fór að tala um þetta og ég sagðist skyldu gera þetta. Ég gæti þetta vel með strákinn minn í barnavagninum. Hann var síðan þarna öllum stundum með mér fyrsta veturinn.“

Safnið flutti fljótt „í lúxushúsnæði, þótt í kjallara væri“ sem var undir Búnaðarbankanum. „Stundum þurfti í leysingum og vatnavöxtum að ausa út vatni en það var allt í lagi. Það var vitað um vandamálið þannig að bækurnar voru það hátt að aldrei skemmdist neitt.“

Tjarnarbrautin í þjóðbraut

Næst var farið í geymslur í Menntaskólanum þar sem Dúrra sá jafnframt um safn skólans. Skólinn þurfti síðan geymsluplássið og þá var flutt á Tjarnarbraut 19 þar sem Snyrtistofan Alda er í dag. „Þá var safnið allt í einu komið í þjóðbraut. Allir áttu leið um Tjarnarbrautina, meira að segja bændur sem þurfti til dýralæknis.“

Þar var safnið þar til það flutti á núverandi stað. „Við lokuðum klukkan fimm á föstudegi á Tjarnarbrautinni. Ég tók bækurnar með hæstu númerunum og pakkaði þeim niður í kassa. Jafnóðum og ég tæmdi hillurnar voru þær teknar niður. Það gerði bóndi minn, synir mínir og bróðir minn og settu þær upp á nýjum stað.

Dagur Kristmundsson smíðaði sérstakan kassa á lyftara á vörubílnum. Hann bakkaði að gaflinum á Safnahúsinu og hífði upp í dyrnar að austanverðu. Ég fékk krakka úr tíunda bekk til að bera kassana út niður frá og hinn hérna. Klukkan fimm næsta föstudag opnaði bókasafnið í nýjum húsakynnum. Það var æðisleg hátíð.“

Bókin sem hvarf

Safnið gegndi ekki eingöngu hlutverki bókasafns heldur leituðu ferðamenn þar upplýsinga. „Ég man sérstaklega eftir því þegar japönsku hjónin komu til mín. Klukkan var að verða sjö, ég var ein eftir og alveg að loka.

Þau þurftu að vita svo óskaplega margt. Þau töluðu sína skrýtnu ensku og ég mína gagnfræðiskólaensku. Svo mikið er víst að ég fékk síðar kort frá þeim þar sem þau þökkuðu fyrir góða og skemmtilega stund í bókasafninu.“

Heimamönnum þurfti líka að ráðleggja þótt það tengdist frekar safnakostinum. „Ég man eftir ungum hjónum og á meðan konan sótti sér bækur kom maðurinn til mín og spurðu hvort ég héldi að bókin sem hann ætlaði að fá í fyrravetur væri inni.

Ég spurði hvaða bók það væri og hann sagðist ekki muna það. Ég spurði líka hvort hann myndi eftir hvern hún væri en það gerði hann heldur ekki né heldur um hvað hún væri.

Við spjölluðum svona saman og hann fór með bókina og þegar hann skilaði henni sagði hann að þetta hefði verið rétta bókin!“

Alltaf verða afföll á bókakosti safna. Ein bók hvarf alltaf þótt keypt væru ný eintök í staðinn. „Við urðum að eiga hana því þetta var eina bókin um efnið á almennum markaði. Þetta var Sjafnaryndi. Af hverju hún hvarf veit ég ekki en hún fékk loksins að vera í friði hér uppi. Hún var að minnsta kosti til þegar ég hætti.“

Dúrra sagði safnið hafa átt marga fastagesti og nefndi meira segja dæmi um fólk sem fellt hefði saman hugi þar. Hún virtist vera ánægð með veruna á safninu miðað við lokaorðin: „Takk fyrir árin sem ég fékk að vera á bókasafninu.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar