Tap af grunnstarfssemi Sparisjóðsins
Ríflega 46 milljóna króna tap varð á kjarnastarfsemi Sparisjóðs Norðfjarðar, inn- og útlánum fyrir skatta á seinasta ári. Þetta kemur fram í skýrslu Fjármálaeftirlitsins yfir ársreikninga fjármálafyrirtækja fyrir árið 2007.
Af átján sparisjóðum á landinu skiluðu tveir þeirra hagnaði af kjarnastarfsemi. Útlán til viðskiptavina sjóðsins í fyrra námu tæplega 3,18 milljörðum króna en innlán 3,25 milljörðum.
Í heildina litið varð rúmlega 300 milljóna króna hagnaður af rekstri Sparisjóðsins. Eignir sjóðsins í árslok voru metnar á 5,7 milljarða króna og bókfært eigið fé rúmur milljarður. Eiginfjárgrunnur sjóðsins nam rúmlega 680 milljónum króna.