Tengslin við Frakkland eru hluti af sjálfsmynd allra Fáskrúðsfirðinga
Frakkinn Antoine Cailloce lauk í vor við meistararitgerð sína um áhrif veru Frakka á Fáskrúðsfirði á hvernig staðurinn hefur þróast í nútímanum. Hann segir dulin tengsl við Frakkland finnast við nánast hvert fótmál á Fáskrúðsfirði. Þau birtist sterkast í útgerðarsögunni, ferðaþjónustunni og sjálfsmynd íbúa - hvort sem þeir eru innfæddir eða aðfluttir.Antoine dvaldist á Fáskrúðfirði í tvo mánuði síðasta vetur þar sem hann tók viðtöl við hátt í 20 íbúa á Fáskrúðsfirði um hvernig tími veiða Frakka, sem í allt stóðu frá því um 1600 fram til 1940, birtast í dag.
Meðal þess sem er sérstakt er að reist voru sjúkrahús fyrir franska sjómenn hérlendis á þremur stöðum, Vestmannaeyjum, Reykjavík og Fáskrúðsfirði. „Frakkar voru með tengsl um allan heim og víða við veiðar en mér er ekki kunnugt um að ríkið hafi annars staðar hafi verið byggt sérstakt sjúkrahús fyrir þá. Samvinnan við Dani er líka sérstök. Þessi byggingar hafa líka þýðingu fyrir þróun íslenskar heilbrigðisþjónustu,“ útskýrir Antoine.
Frakkar í pílagrímaferð á Fáskrúðsfirði
Antoine segist hafa fundið þrjá meginþætti í Fáskrúðsfirði samtímans sem byggi á frönsku fortíðinni. Þar nefnir hann fyrst sjávarútveginn. „Mér finnst samvinnufélagið að baki útgerðinni mjög áhugavert, að þarna sé fyrirtæki í félagslegri eigu. Fyrirtækið er arðbært og það er meðal annars notað til að fjármagna Frönsku dagana og þar með viðhalda tengslunum, jafnvel þótt ekki gangi allir viðburðir út á þau.
Síðan er eigin útgerð Fáskrúðsfirðinga ákveðið áframhald af veiðunum sem landar mínir stunduðu. Okkar veiðum lýkur rétt fyrir 1940. Á móti er Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga stofnað 1933 og færir sig í útgerð um tíu árum síðar. Síðan fara Íslendingar að færa út lögsögu sína. Þá dregur úr veiðum annarra þjóða hér en íslenskur sjávarútvegur þróast.“
Antoine segir veiðarnar við Ísland hafa skipt miklu máli fyrir efnahag Frakkland. „Þorskveiðar í Norður-Atlantshafi skiptu miklu máli fyrir efnahag Evrópu og eru á sinn hátt ein af undirstöðum kapítalisma nútímans. Evrópubúar sóttu framandi krydd austur til Indlands eftir Silkiveginum en fisk í norðurhöf. Á 19. öld skiptu veiðarnar miklu fyrir Frakkland.“
Safnið gerir tengslin aðgengileg
Annað sem Antoine nefnir er ferðaþjónustan sem byggist upp með tilkomu jarðganganna og Franska safnsins. „Göngin eru rótin að ferðamennskunni. Þau eru opnuð 2005. Eftir það fær Franski grafreiturinn andlitslyftingu og safnið er byggt upp.
Með safninu er orðin til stofnun sem viðheldur tengslunum og þekkingunni, þetta er ekki lengur bundið við einstakar fjölskyldur eða í formi einhverra húsarústa út með firði. Þetta þýðir líka að Fáskrúðsfirðinga eru eru stöðugt að ræða fortíð sína og þar með halda henni á lofti.
Á sama tíma skapar ferðaþjónustan störf sem laðar til sín nýtt fólk. Þar með flytur fólk hingað með alþjóðleg tengsl, líkt og voru þegar Frakkarnir voru við veiðar. Þeirra tengsl eru þó af allt öðrum toga, við vitum að fólk heillast af íslensku náttúrunni og finnur sér vinnu til að vera í nágrenni við hana meðan það voru aðrar hvatir sem drógu menn á sjóinn.
Við megum heldur ekki gleyma því að Fáskrúðsfjörður höfðu tengsl við fleiri þjóðir. Þar var til dæmis þýsk hvalveiðistöð en það er lítið að finna um þá sögu. Franska safnið segir sinn hluta sögunnar mjög vel en það segir ekki alla söguna.“
Í þriðja lagi nefnir Antoine ímynd Fáskrúðsfirðinga, bæði þeirra sjálfsmynd og hvernig aðrir horfa á þá. „Í fræðunum er talað um „borealism“ sem er einhvers konar víkingastaðalímynd Norðurlandabúa í augum annarra. Ég lagði aðeins út frá þeim kenningum og skoðaði svo þróun samfélagsins á Fáskrúðsfirði með tilkomu innflytjenda.
En ég fann líka sterkt að frönsku tengslin eru mjög stór hluti af sjálfsmynd Fáskrúðsfirðinga, ekki bara meðal fólks sem hefur alist þar upp heldur líka meðal innflytjenda. Tengslin skipta marga íbúa mjög miklu máli og það fannst mér áhugavert.“
Dulin tengsl alls staðar á Fáskrúðsfirði
Fáskrúðsfjörður hefur átt vinabæjarsamband við Gravelines allt frá árinu 1989. Athafnir sem tengjast frönsku tengslum eru hluti af dagskrá bæjarhátíðarinnar Franskra daga sem haldnir hafa verið frá 1996. Á móti eru í september ár hvert haldnir Íslandsdagar í Gravelines með þátttöku fulltrúa úr Fjarðabyggð.
Að mati Antoine hafa frönsku tengslin sjaldan verið sterkari en í dag. „Tengslin milli Fáskrúðsfjarðar myndast ekki fyrr en eftir að veiðunum lýkur, þegar fólkið í firðinum fer að sýna þeim hluta sögu sinnar, sem Frakkland er hluti af, áhuga. Uppbygging Franska spítalans er mjög táknræn fyrir hana.
Síðan er það grafreiturinn, fallegur staður sem ég heimsótti nokkrum sinnum. Þegar ég kom fyrst var 10 sm. snjór alls staðar og þá sá ég ekki litla gripi aftan við krossana sem afkomendur látnu frönsku sjómannanna höfðu komið með. Það var mjög gaman að sjá þessa muni þegar snjórinn bráðnaði. Svona hlutir eru góðir til að styrkja tengslin.
Á safninu las ég um hús í bænum sem er byggt úr frönskum báti sem fórst á firðinum. Ég hitti síðan manninn sem býr þar. Hann var nýbúinn að endurbyggja húsið og við það hélt hann í viðarbúta sem eru úr bátnum. Hann sýndi mér til dæmis stóran nagla úr honum. Þetta er dæmi um hvernig sagan er enn til staðar í daglegu lífi Fáskrúðsfirðinga. Ég varði líka drjúgum tíma til að ræða tengslin við Óðinn (Magnason) á Sumarlínu og Fjólu (Þorsteinsdóttur) á safninu.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.