„Þetta er ólæknandi baktería“

„Við ákváðum að taka starfsárið í minningu þessa merka áfanga,“ segir Einar Rafn Haraldsson, formaður Leikfélags Fljótsdalshéraðs, en það fagnar 50 ára starfsafmæli sínu um helgina.



„Við hófum leikárið á sýningunni Allra meina bót og ferðuðumst með hana um fjórðunginn, rétt eins og gert var í gamla daga. Þetta gerðum við til þess að minna á gamla tíma og var það mjög ánægjulegt,“ segir Einar Rafn.

Meginviðburðurinn verður í Valaskjálf á laugardagskvöld og sunnudag, en þá mun tónlistarfólk úr öllum áttum flytja lög úr sýningum og viðburðum sem félagið hefur staðið fyrir gegnum tíðina.

Björn Ingimarsson, bæjarstjóri á Egilsstöðum, opnar sögusýningu leikfélagsins í Sláturhúsinu á laugardaginn, en hún verður opin eitthvað frameftir vetri.

Á fimmtudagskvöldum í vetur verða einnig bíókvöld á vegum félagsins, þar sem sýndar verða upptökur frá verum sem sett hafa verið upp.

„Allir þessir viðburðir eru ókeypis og erum við bara að segja „takk fyrir samveruna í 50 ár“. Það eru fjölmargir sem koma að þessu og allir hafa verið boðnir og búnir að koma fram og aðstoða á annan hátt.“


Gott uppeldistæki

Einar Rafn hefur verið viðriðinn félagið frá árinu 1974 en áður hafði hann starfað með Leikfélagi Akureyrar frá fimmtán ára aldri.

„Þetta er alveg ólæknandi baktería – félagsskapurinn er góður og það er gott fyrir sálina að skapa og búa eitthvað til. Það er nauðsynlegt að hafa virkt leikfélag í öllum byggðarkjörnum og þetta er gott uppeldistæki fyrir ungt fólk og mér finnst að það mætti gera leiklistinni hærra undir höfði inn í skólakerfinu, það er öllum holt að læra að koma fram og finna fyrir vaxandi sjálfstrausti sem það gefur.“



Við höfum aldrei stoppað

Einar Rafn er bjartsýnn á framtíð félagsins. „Við höldum tvíefld ef ekki þríefld áfram og setjumst niður fljótlega eftir að þessu verkefni sleppir til þess að ákveða fyrstu sýningu nýs árs sem verður keyrð fyrr hluta vetrar 2017.

Það er eins og í þessu og öðrum félögum, það koma toppar og lægðir. Við höfum verið með allt upp í 100 manns í stærstu verkefnunum og niður í tólf manna hópa í öðrum. Þetta sveiflast einhvernvegin eftir árferðinu og viðfangsefnunum hverju sinni, en kjarninn lifir alltaf og við höfum aldrei stoppað.“

Nánari tímasetningar á viðburðunum má sjá hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar