„Það var kalt á Suðurskautinu!“

Hálfdán Helgi Helgason, líffræðingur og starfsmaður Náttúrustofu Austurlands dvaldi í vetur í tvo mánuði á Suðurskautslandinu. Þar vann hann við fuglarannsóknir á vegum Norsku heimskautastofnunarinnar.

Áður en Hálfdán kom til Náttúrustofunnar árið 2019, hafði hann unnið há norsku stofnuninni í um áratug, einkum við vaktanir á skúmi á Svalbarða. Nú er stofnunin að auka þá vöktun á Suðurskautinu.

„Í fyrra fékk ég tölvupóst frá náunga sem ég hafði verið að vinna með og er yfir þessum rannsóknum á Suðurskautinu. Ég held að hann hafi búist við að ég myndi svara honum með því að segja að ég gæti ekki farið, en hann prófaði samt.

Ég fór hins vegar strax í að tala við þáverandi unnustu mína til rúmlega 20 ára. Hún sagðist ekki getað sagt nei, því ég hef áður þurft að hafna svona boði, en að við þyrftum þá að gifta okkur fyrst. Við redduðum því daginn fyrir brottför. Síðan fékk ég leyfi hjá yfirmanni mínum, fyrir ferðinni það er að segja, ekki giftingunni, og það var auðsótt mál.

Ég vildi ekki svara póstinum strax þannig að ég héldi aðeins kúlinu – en ég var búinn að svara daginn eftir. Svo hélt ég af stað í brúðkaupsferðina, reyndar einsamall - en það kom ekki að sök!“ segir Hálfdán um aðdraganda þess að hann hélt viku fyrir jól af landi brott áleiðis til Suðurskautslandsins. Hann kom aftur heim í lok febrúar.

Ekkert skilið eftir


Um 20 ríki reka rannsóknarstöðvar á Suðurskautinu. Þær eru gjarnan byggðar þannig upp að um er að ræða eina meginstöð og síðan nokkrar minni stöðvar út frá henni, sem eru þá gjarnan reknar í styttri tíma. Aðalstöð Norðmanna kallast Troll og þangað kom Hálfdán fyrst. Þar hlaut hann þjálfun til að akast á við aðstæður, svo sem í ísklifri, sprungubjörgun, skyndihjálp og síðast en ekki síst sorpflokkun.

„Hún er mikilvæg því það er ekkert skilið eftir heldur er allt flutt í burtu þannig að það fari ekki út í náttúruna. Allt er flutt úr litlu stöðvunum til Troll og þaðan til Suður-Afríku eða jafnvel Noregs,“ útskýrir Hálfdán.

Stöðin sem hann fór síðan í á Þorláksmessu heitir Tor. Hún er í um 90 km fjarlægð frá Troll inn til landsins og þangað tekur sex tíma að fara á snjóbíl, því þræða þarf fyrir jökulsprungur á leiðinni upp í um 1.600 metra hæð. Þar var Hálfdán ásamt tveimur öðrum líffræðingum í fyrstu, Frakka og Breta, en Frakkinn fór síðan heim því hann hafði verið með fyrri leiðangri í Tor.

„Það var kalt,“ svarar Hálfdán aðspurður um hvernig það hafi verið að koma til Suðurskautsins. Hann var þar um hásumar en hitinn var samt yfirleitt -15 til -20 °C, sjaldnast var hlýrra en -10°C. Sólin skín yfir daginn og þá er veðrið mildara. Kaldast varð um -45°C með vindkælingu. „Það var kaldur dagur,“ segir Hálfdán.

Rannsakendurnir eru vel út búnir og segir Hálfdán þá aðeins hafa misst einn dag úr vinnu vegna veðurs. Það var reyndar jóladagur þannig að rannsakendurnir áttu hvort sem er að vera í fríi, en hann segir þá samt hafa farið út að taka myndir.

„Stormurinn var mjög áhugaverður. Ég hefði ekki viljað missa af honum. Það var ótrúlegt að sjá fuglana, þeir eru mjög vel aðlagaðir að þessum aðstæðum. Ísdrúðarnir lágu á eggjum sínum. Þeir voru komnir á kaf í snjó en alltaf reglulega rak fuglinn álkuna upp úr snjónum og lá áfram sem fastast.“

Miklar stærðir


Hálfdán og félagar vörðu dögunum við vísindastörf. Voru yfirleitt komnir út um klukkan sex að morgni og inn um fjögur síðdegis. Þá er sólin horfin á bakvið fjöllin og orðið virkilega kalt.

Á Suðurskautinu gengur sólin rangsælis. „Það tók okkur nokkra daga að átta okkur á því. Við fundum að það var eitthvað öðruvísi en við vorum ekki búnir að kveikja á því hvað það var. Ég sat í fjallshlíðinni og var að merkja fugla og hugsaði með mér að það yrði gott þegar sólin kæmi almennilega upp frá fjallinu en hún hélt svo bara áfram að síga á bak við fjöllin, rangsælis. Það var pínu kjánalegt að hafa ekki kveikt á þessu fyrr en það var svona Aha!-augnablik þegar kviknaði á perunni!

Það sem maður áttar sig líka á eftir á, þegar maður skoðar kort, er hvað við fórum yfir lítið svæði. Suðurskautslandið er svo stórt. Íshellan þarna er um 1,5 km að þykkt. Þegar við fórum upp í fjallið þá vorum við komnir í 2.100 metra hæð.

En þar sem íshellan er þykkust er hún um 4,8 km þykk. Þarna er um 90% af öllum ís jarðar og um 70% alls ferskvatns er frosið í honum. Þannig að þetta er allt svo fáránlega stórt, en af því að maður sér ekkert nema hvítan sjóndeildarhring þá er erfitt að átta sig á stærðum.“

Eins og fýlar verptu á Bárðarbungu


Rannsóknin sem Hálfdán tók þátt í beinist að þremur fuglategundum: ísdrúða, snædrúða og sæskúmi. Ísdrúðabyggðin á Suðurskautslandinu er sú stærsta í heimi. Fyrir nokkrum áratugum voru þar um 250.000 varppör en þeim hefur farið fækkandi. Árið 2022 gerði mikið óveður og þá verptu þar aðeins þrjú pör. Samkvæmt talningum Hálfdáns og félaga voru þau nú um 65.000. Utan varptímans heldur fuglinn til við ísröndina.

„Þetta er svo merkilegur fugl. Þetta er svipað og ef fýlar myndu verpa uppi á Bárðarbungu. Ísdrúðarnir fara upp í þennan fjallgarð til að verpa. Á meðan annar fuglinn liggur á hreiðrinu fer hinn í fæðuleiðangur sem getur varað í nokkra daga. Þeir skiptast á þessu.

Fyrstu dagana eftir að unginn klekst út er annað foreldrið alltaf hjá honum og þau fara styttra eftir fæðunni. Þegar unginn verður það stálpaður að hann getur sjálfur haldið á sér hita, sem gerist merkilega hratt, þá fara báðir foreldrarnir í fæðuleit og geta aftur farið í lengri ferðir. Þær geta varað í 3-5 daga því þeir fljúga frá hreiðrinu út á sjóinn. Þetta geta verið 2000 km ferðir.

Annað sem er merkilegt við ísdrúðann er að hann virðist ekkert sérstaklega ratvís. Við sáum það á GPS ferlunum. Fuglinn fer ekki stystu leið til baka utan af hafi að byggðinni. Eftir að hafa yfirgefið byggðina fljúga þeir til norðurs, koma að sjó og leita fæðu við ísröndina. Þegar fæðan er komin snýr hann við og tekur strikið til suðurs inn til landsins. Þar lendir fuglinn á fjallgarðinum og fylgir honum þar til að hann kemur að byggðinni.“

Reynt er að koma upp sambærilegri vöktun á varpi sæskúmsins ásamt því að komast að því hvar hann heldur sig á öðrum tímum árs. Ólíkt drúðunum þurfa skúmarnir hvergi að fara því þeir éta drúða, bæði egg og unga. „Þetta er bara búrið þeirra. Það getur verið heillandi en brútalt að fylgjast með þessu öllu.

Drúðinn er pípunefur eins og fýll. Þeir hafa sama varnarkerfi, að æla lýsi. En á meðan þeir eru í fæðuöflun þá geta skúmarnir komist að ungunum. Þeir þurfa alltaf að hafa aðgang að fæðu þannig að þeir sækja þá upp í hlíðina og fara með þá niður á sléttuna lifandi þannig að þeir frjósi ekki, því annars geta skúmarnir ekki étið þá. Þannig ef maður er á labbi í skúmabyggðinni þá eru þar kannski 3-4 drúðaungar við hvert óðal, sem sitja bara og bíða þess að verða étnir.“

Rannsóknirnar eru til lengri tíma. Verið var að setja dægurrita á fugla til að afla upplýsinga um ferðir þeirra og vetrarstöðvar, en einnig voru tekin blóðsýni til að leita þrávirkra eiturefna og örplasts. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt fram á að örplast finnst nánast alls staðar í lífríkinu, líka á Suðurskautinu. „Við erum hvergi óhult fyrir þessu.“

Það er líka reynt að kortleggja áhrif loftslagsbreytinga. Norskar rannsóknir hafa bent til þess að bráðnun íssins undir íshellunni sé hraðari en talið var. „Vistkerfi eru breytileg og stofnar sveiflast í takt við umhverfisbreytingar og geta aðlagast breyttum aðstæðum, en það tekur langan tíma. Þegar breytingar gerast aftur á móti eins hratt og þær breytingar sem við sjáum í dag, er ólíklegt að slíkt gerist og mjög sérhæfðar tegundir eru þá sérstaklega viðkvæmar.“

50.000 ára gömul æla


Rannsóknirnar á Suðurskautinu snúa líka að ýmsum öðrum þáttum. Hálfdán útskýrir að þegar drúðarnir mæti á svæðið á vorin gangi mikið á í baráttunni um bestu hreiðurstæðin. Þeir æla hver yfir annan en vegna kuldans brotnar hún ekki niður heldur safnast upp í þykk setlög. „Það er búið að aldursgreina þessar ælur og það er ljóst að þær elstu eru að minnsta kosti 50.000 ára gamlar. Jarðvegurinn þarna er að miklu leyti bara drit, hræ og æla.“

Hann heldur áfram lýsingum sínum á að olía renni úr þessum jarðvegi og safnist upp í svartar olíutjarnir sem sumar frjósi ekki. „Maður fór varlega nærri þeim og vildi ekki falla ofan í þær. Það var nógu mikið vesen að komast í sturtu, hvað þá að þrífa þetta úr fötunum!“

En þótt gamla ælan hljómi ógeðslega þá varðveitir hún upplýsingar. Hún sýnir fæði fuglanna og þar með hvernig lífríkið í kringum Suðurskautið hefur þróast í tug þúsundir ára.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar