Þórunn Gréta og Konrad fulltrúar Austfirðinga á Norrænum músikdögum
Margmiðlunarlistamaðurinn Konrad Korabiewski og tónskáldið Þórunn Gréta Sigurðardóttir eru fulltrúar Austfirðinga á Norrænum músikdögum sem haldnir verða í Hörpu um helgina.
Konrad frumflytur þar nýtt verk sem kallast Ascencion en myndhlutinn er tekinn upp í hafnarborginni Valparaíso í Síle. Borgin er byggð utan í hæðum og myndaði Konrad ferð upp hlíðarnar í kláf.
Hljóðmyndin er hins vegar samin á Seyðisfirði þar sem Konrad heldur til.
Þórunn Gréta er meðal þeirra íslensku tónskálda sem mæta til daganna. Hún er uppalin á Héraði en hefur síðustu ár búið á Eskifirði. Hún lauk meistaragráðu í tónsmíðum frá Hochschule für Musik und Theater í Hamburg árið 2014.
Hátíðin hefur verið haldin frá árinu 1888 og er nú haldin árlega, til skiptis í hverju Norðurlandanna og stefnt er saman tónskáldum og tónlistarmönnum þaðan.