Þungarokkshljómsveit spilaði undir með stúlknakór

Þungarokkshljómsveitin Meistarar dauðans kom nýverið fram á tvennum tónleikum eystra ásamt stúlknakórnum Liljunum. Hljómsveitarmeðlimir segja það hafa verið nýja áskorun að spila undir með stórum kór þar sem tímasetningarnar hafi verið enn mikilvægari en ella.


„Það má ekki gera of mikið því kórinn þarf sitt rými heldur snýst þetta meira um að koma inn á réttum stöðum. Við þurftum aðeins að halda aftur af okkur í byrjun en þetta vandist,“ segir Ásþór Loki Rúnarsson.

Hann myndar sveitina ásamt bróður sínum Þórarni Þey sem trommar og Albert Elíasi Arasyni sem spilar á bassa en Ásþór spilar á gítar og syngur. Strákarnir búa allir á höfuðborgarsvæðinu en hafa sterk tengsl austur þar sem afar þeirra og ömmur búa öll annars vegar á Egilsstöðum og hins vegar Stöðvarfirði.

Föðursystir bræðranna er Margrét Lára Þórarinsdóttir sem stýrt hefur Liljunum. Þannig kom ferðin austur. „Hún bað okkur um að koma austur og spila undir,“ segir Ásþór Loki.

Strákarnir stunda allir nám í tónlistarskóla FÍH. Þeir ákváðu að nota ferðina til að miðla þeirri þekkingu og héldu hljómsveitanámskeið á Egilsstöðum og Norðfirði. Áherslan þar er meðal annars á að allir hjálpist að, til dæmis við að stilla upp trommusettinu.

„Það tekur langan tíma að stilla upp trommusetti svo það gengur hraðar er þrír hjálpast að. Það skapar ekki góðan móral ef bassaleikarinn stingur sínu í samband og fer svo í mat á meðan trommuleikarinn er einn og nær ekkert að borða,“ segir Þórarinn Þeyr.

Strákarnir hafa spilað saman síðan í febrúar 2011 þegar þeir voru 7, 10 og 12 ára. Fyrsta breiðskífa sveitarinnar kom út síðasta haust og hlaut tilnefningar til íslensku tónlistarverðlaunanna sem besta rokkplatan.

Nóg er að gera hjá meisturunum í sumar. Þeir komu fram á Bryggjuhátíð á Reyðarfirði fyrir viku og á Eistnaflugi í gærkvöldi.

Frá tónleikum Meistara dauðans og Liljanna í Valaskjálf. Mynd: Skúli Björn Gunnarsson

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar