![](/images/stories/news/2016/preben_jon_0003_web.jpg)
Þurfti að sérútbúa bílinn til að geta ferðast milli landshluta
Preben Jón Pétursson, oddviti Bjartrar framtíðar í Norðausturkjördæmi, hefur þurft að finna úrræði þar sem honum er að læknisráði bannað að sitja. Hann innréttaði sendibifreið og fékk sér bílstjóra til að komast á framboðsfund sem Austurfrétt/Austurglugginn hélt á Egilsstöðum í gærkvöldi.
„Ég var svo óheppinn fyrir tveimur vikum að ég þurfti í aðgerð vegna brjóskloss og má alls ekki sitja þannig ég verð annað hvort að standa eða liggja. Kjördæmið er víðfeðmt og mig lagnar til að ferðast um og hitta fólk og þá er þetta eina leiðin.“
Preben Jón leigði sér því lítinn sendiferðabíl og kom fyrir í honum dýnu. „Þetta er tjalddýna sem dóttir mín hefur notað á íþróttaferðalögum. Við höfum rifist um hvort hún væri brúkleg þannig ég varð að sannreyna það og finnst hún fín.“
Í þessu ástandi getur frambjóðandinn heldur ekki setið við stýrið. Þá stóð hann uppréttur allan fundinn sem varð rúmir tveir tímar. „Ég er með einkabílstjóra. Tengdapabbi rúntaði með mig austur í kvöld og svo er það konan. Þetta er lagt á fjölskylduna.“