Þuríður Elísa: Djúpivogur er staðurinn

Þuríður Elísa Harðardóttir fluttist í sumar austur á Djúpavog með fjölskyldu sína eftir að hafa verið ráðin minjavörður Austurlands. Hvorki hún né maðurinn hennar hafa áður búið á landsbyggðinni en kunna afar vel við sig á Djúpavogi.


„Ég er fædd á Akureyri en alin upp í Breiðholtinu. Maðurinn minn er alinn upp í Stórholti í miðju Reykjavíkur. Við höfum bæði tengingar austur, amma mín er úr Breiðdal en hans frá Eskifirði. Ég sagði við hann að við værum að sameina fjölskylduna aftur fyrir austan,“ segir Þuríður í viðtali við Austurgluggann.

Þuríður tók við starfinu í byrjun árs og fluttist austur maí. Maðurinn hennar og tveir synir, átta og þriggja ára komu mánuði síðar. „Við vorum ekki búin að vera hér lengi þegar sá eldri sagði að honum þætti miklu betra að vera sveitastrákur en borgarstrákur.

Á Djúpavogi er mikið af ungu fólki og börnum og eitt af því sem við skoðuðum áður en við fluttum var hvort hér væru krakkar og hugsuðum út í hvernig okkar strákum myndi líða.

Síðan kemst maður að að því að það er fullt af krökkum og nóg um að vera. Það er fótbolti og sund eftir skóla og íþróttaskóli á laugardögum fyrir leikskólabörnin. Þess utan hleypur eldri strákurinn úti í frelsinu í náttúrunni. Það er mikið gert fyrir krakkana og það fannst mér rosalega mikilvægt.“

Ekkert 10-11 allan sólarhringinn

Aðrar áskoranir fylgja því hins vegar að búa eystra en maðurinn hennar vinnur við smíðar á Höfn. Þá þarf að laga lífið að nýjum aðstæðum. „Það er ekkert 10-11 opið hér allan sólarhringinn. Til að fara í Bónus þurfum við að keyra í Egilsstaði Við eigum ekki alltaf leið þangað þannig að matarinnkaupin þarf að skipuleggja betur.“

Það eru líka viðbrigði að koma í minna samfélag. „Það hefur ekki angrað okkur. Það er þægilegra ef eitthvað er. Það eru allir svo vingjarnlegir. Í bænum ertu bara andlitslaus í mannmergðinni, það þekkir þig enginn úti í búð og heima fyrir þekkirðu kannski bara nokkra nágranna.

Þegar ég kom hingað var svo mikill áhugi á okkur. Það vissu flestir hver ég var og að ég ætti mann og börn, fólkið átti von á okkur. Fólk var vinalegt, vildi kynnast okkur og virtist ánægt með að fá okkur inn í samfélagið sitt. “

Staða minjavarðar var flutt á Djúpavog frá Egilsstöðum í byrjun árs 2015. „Við veltum fyrir okkur þeim möguleika hvort hægt væri að flytja skrifstofuna aftur á Egilsstaði en eftir að hafa kynnt mér Djúpavog fékk ég góða tilfinningu fyrir staðnum. Ég ákvað að gefa þessu séns og pældi ekki meira í því. Starfssvæðið nær frá Vopnafirði og að Skeiðarársandi og Djúpivogurinn er miðjan á því. Staðsetningin er því mjög hagstæð“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar