Til gagns og fegurðar í Safnahúsi

Á morgun, fimmtudag, opnar ljósmyndasýning í Safnhúsinu á Egilsstöðum. Hún ber heitið „Til gagns og fegurðar“. Myndirnar á sýningunni eru fengnar úr samnefndri sýningu sem var í Þjóðminjasafni Íslands fyrri hluta árs 2008. Þema „Til gagns og fegurðar“ er útlit og klæðaburður Íslendinga á árabilinu 1860-1960.

images.jpg

Sýningin er hluti samnefndrar ljósmyndasýningar sem hékk uppi í Þjóðminjasafni Íslands á síðasta ári (frá 8. febrúar til 4. maí 2008) og eru myndirnar á sýningunni í Safnahúsinu fengnar að láni frá Þjóðminjasafni.

Ljósmyndasýningin "Til gagns og til fegurðar" byggir á rannsóknum Æsu Sigurjónsdóttur listfræðings á útliti og klæðaburði Íslendinga í ljósmyndum frá 1860 til 1960. Samhliða sýningunni í Þjóðminjasafninu var gefin út bók sem bar sama heiti og sýningin en í þeirri bók birtast rannsóknir Æsu á efninu auk myndanna sem voru á sýningunni.

Á sýningunni í Þjóðminjasafninu var bent á hvernig Íslendingar notuðu ljósmyndir, þjóðbúninga og tísku til að skapa sér sjálfsmynd og eru myndirnar á sýningunni vísbending um hvernig Íslendingar litu út og hvernig þeir vildu vera.

„Til gagns og fegurðar“ verður formlega opnuð fimmtudaginn 22. janúar kl. 17:15. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar