![](/images/stories/news/2016/soroptimistar_berjamo.jpg)
Tíndu yfir tuttugu lítra af hrútaberjum
Félagar úr Soroptimistaklúbbi Austurlands komu heim með fullar fötur eftir að hafa farið í berjamó í Hallormsstaðarskógi um helgina. Unnið verður úr berjunum til að afla fjár fyrir starfsemi klúbbsins.
Tíndir voru yfir 20 lítrar í tveimur ferðum. Fjórar konur fóru á laugardag og sex á sunnudag og voru tæpa tvo tíma úti í skógi í hvort skipti.
Þórunn Hálfdanardóttir, verkefnastjóri klúbbsins og heimamaður á Hallormsstað, segir hrútaberjasprettu í skóginum góða.
„Það er búið að tína geysimikið af berjum í skóginum í sumar. Það fer hins vegar hver að verða síðastur því berin eru eiginlega að verða of þroskuð, einkum niður við Fljót. Við þurfum að fara dálítið upp í skóg.“
Áætlað er að úr berjunum verði hægt að sjóða 120 krukkur af hlaupi. Það verður selt innan hópsins en einkum á landsþingi Soroptimista í byrjun október. Ágóðinn fer í verkefni sem klúbburinn kemur að.