Töfrar af öllu litrófinu á uppskeruhátíð LungA

Afrakstur listasmiðja sem verið hafa í gangi á LungA hátíðinni á Seyðisfirði verður sýndur klukkan fimm í dag. Skipuleggjendur hátíðarinnar segja hana hafa gengið vel þótt þeir hefðu kosið betra veður í vikunni.

„Stemmingin er búin að vera skemmtileg, þrátt fyrir veðrið og allt gengið rosalega vel miðað við hversu stór hátíðin er orðin,“ segir Viktor Andersen, einn skipuleggjenda hátíðarinnar.

Af einstökum viðburðum vikunnar má nefna að húsfyllir var á dragsýningu Gogo starr í gærkvöldi og þá hafa málstofur um framtíðarsýn undir merkjum LungA lab verið vel sóttar og fræðandi, að sögn Viktors.

Yfir 100 þátttakendur hafa í vikunni tekið þátt í átta listasmiðjum og sýna afrakstur vinnu sinnar í dag. Sýningarnar hefjast klukkan fimm og eru dreifðar um bæinn. Hægt er að nálgast kort í Herðubreið auk þess sem upplýsingar verða settar inn á samfélagsmiðla.

„Það verður allt mögulegt í boði á uppskeruhátíðinni enda listasmiðjurnar mjög mismunandi. Það verða töfrar af öllu litrófinu,“ segir Viktor.

Til viðbótar við smiðjurnar átta hefur í dag verið í gangi sérstök föstudagssmiðja undir yfirskriftinni: „Að gera eitthvað eða ekkert.“ „Þetta er mjög leyndardómsfull smiðja. Það er gert eitthvað, eða ekkert – eða bæði,“ segir Viktor kíminn.

Bæði í kvöld og annað kvöld verða stórtónleikar sem samkvæmt auglýstri dagskrá verða úti við Norðursíld. Þá verður laugardagsmarkaður við Herðubreið á morgun.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar