Tökulið Clooney lenti á Egilsstöðum
Þota með kvikmyndatökuliði sem starfa mun við gerð nýjustu myndar George Clooney lenti á Egilsstaðaflugvelli í gær. Annasamt hefur verið á vellinum síðustu daga.Eftir því sem Austurfrétt kemst næst var í fluginu 60-80 manna starfslið og talsverður búnaður sem dreifðist í fjóra flutningabíla. Vélin lenti skömmu upp úr hádegi en hún kom frá Stanstead-flugvelli í Lundúnum.
Hvorki Clooney sjálfur, sem bæði leikstýrir og fer með eitt aðalhlutverkanna myndarinnar, né aðrir helstu leikarar munu hafa verið um borð heldur aðeins tökulið að fara að undirbúa tökustaðinn. Ferð þess var heitið á svæðið í kringum Smyrlabjörg í Sveitarfélaginu Hornafirði.
Kvikmyndin heitir „Good Morning, Midnight“ og er gerð eftir samnefndri skáldsögu Lily Brooks-Dalton. Í henni segir frá vísindamanni sem er einn á norðurslóðum og reynir af öllum mætti að ná sambandi við áhöfn geimskutlu sem er að reyna að komast til jarðar.
Með önnur helstu hlutverk í myndinni fara Felicity Jones, Kyle Chandler David Oyelowo og Tiffany Boone. Hún er framleidd fyrir Netflix og verður aðgengileg á efnisveitunni á næsta ári.
Nóg hefur verið um að vera á flugvellinum á Egilsstöðum síðustu daga. Þaðan fór í gærmorgun þota frá Icelandair með ferðalanga á leið til Tenerife. Þá lenti á sunnudag leiguflug á vegum ferðaskrifstofunnar Tripical með farþega sem voru að koma heim úr þriggja daga ferð í Gdansk í Póllandi.