![](/images/stories/news/folk/Tolli_Morthens2.jpg)
Tolli með opinn fyrirlestur um núvitundarhugleiðslu á Reyðarfirði
„Tolli forfallaðist þegar hann ætlaði að koma til okkar um daginn en nú er hann á leiðinni og verður með opinn fyrirlestur um núvitund á Reyðarfirði á laugardaginn,“ segir Jóhann Sæberg, formaður Krabbameinsfélags Austurlands.
Listamaðurinn Tolli Morthens heldur opinn fyrirlestur um núvitun og reynslu sína af krabbameini í í safnaðarheimilinu Reyðarfjarðarkirkju á laugardaginn milli klukkan 11:00 og 14:00.
Tolli áætlaði að halda sama fyrirlestur á árlegri hvíldarhelgi á Eiðum sem haldin er á vegum Krabbameinsfélags Austfjarða og Krabbameinsfélags Austurlands en forfallaðist vegna veikinda.
Fyrirlesturinn er öllum opinn og að kostnaðarlausu og skráningar eru óþarfar, fólk mætir bara á staðinn og nýtur stundarinnar.
„Ég verð þarna til þess að deila af minni reynslu, en það er nú þannig að þeir sem fá krabbamein verða sérfræðingar í sjúkdómnum. Mannskepnan er svo ekki flóknari en það að við erum öll undir sama lögmáli og þegar við verðum sérfræðingar í einhverju verðum við sérfræðingar í þeim sem eru á sama stað og þykir gott að bera saman bækur okkar, reynslu, styrk og vonir,“ sagði Tolli í samtali við Austurfrétt um daginn, en viðtalið í heild sinni má lesa hér.