![](/images/stories/news/2016/slaturhusid.jpg)
„Þörfin fyrir alvöru kvikmyndasal á Austurlandi er hrópandi“
Þrátt fyrir að mörg þorrablót séu í fjórðungnum um helgina er annarsskonar menningarlíf að fara af stað eftir jólin.
RIFF kvikmyndahátíð á fjórum stöðum á Austurlandi
RIFF, kvikmyndahátíð á Austurlandi fer fram á fjórum stöðum um helgina, á Djúpavogi, Egilsstöðum, Seyðisfirði og Vopnafirði.
Sýndar verða myndirnar Á sama báti, Humarsúpa innifalin og Úrval. Allir staðirnir sýna sömu myndirnar en ekki endilega á sama tíma.
„Um árlegan viðburð er að ræða sem mælst hefur vel fyrir. Vonir standa til að hátíðin stækki hér fyrir austan og við verðum virkari þátttakendur í aðal RIFF hátíðinni sem haldin er að hausti ár hvert, segir Unnar Geir Unnarssn, framkvæmdastjóri Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs.
„Þörfin fyrir alvöru kvikmyndasal á Austurlandi er hrópandi við skipulagningu hátíðar sem þessarar. Það er eftirspurn og algjörlega grundvöllur fyrir því að bjóða uppá eina eða tvær sýningar um helgar.
Það þarf ekki að fara í einhverjar stórframkvæmdir, nóg er nú af steinsteypunni hér fyrir austan. Það trúir mér enginn þegar ég segi fólki að okkar næsta bíó sé á Akureyri. Að fara í bíó á bara hversdagslegur hlutur ekki einhver stórkostleg fyrirhöfn,“ segir Unnar Geir.
Nánar má lesa um hátíðana og tímasetningar viðburða hér.
Leiklistarsmiðja á Skriðuklaustri
Sviðslistahópurinn Sviðverkur, Gunnarsstofnun og Leikfélag Fljótsdalshéraðs standa fyrir leiklistarsmiðju á Skriðuklaustri dagana 30. janúar til 2. febrúar (laugardagur til þriðjudags).
Gegnum smiðjuna fá þátttakendur að kynnast ólíkum leiklistaraðferðum og gera verklegar æfingar upp úr verki Gunnars Gunnarssonar, Sælir eru einfaldir, þar sem einblínt verður á texta Gunnars og tengsl hans við rými Skriðuklausturs.Þátttakendum verður skipt upp í hópa sem munu setja saman stutta leikþætti sem sýndir verða á lokadegi smiðjunnar.
Allt áhugafólk um leiklist er velkomið, byrjendur og lengra komnir. Skráning fer fram gegnum This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og nánari upplýsingar má sjá hér.
Kynningardagur á Djúpavogi
Djúpivogur blæs til viðamikils kynningardags á laugardaginn undir yfirskriftinni „Fjörugt félagslíf og blómlegt bæjarlíf, en þar gefst félagasamtökum, fyrirtækjum og frumkvöðlum á Djúpavogi kostur á því að kynna starfsemi sína. Nánar má lesa um viðburðinn hér.