Þorsteinn hyggst hætta á toppnum

Lið Fljótsdalshéraðs sigraði lið Reykavíkur í úrslitaviðureign vetrarins Í Útsvari síðastliðið föstudagskvöld.



Viðureignin var æsispennandi og sigraði Fljótsdalshérað með 79 stigum gegn 66 stigum Reykjavíkurliðsins og réðust úrslitin réðust ekki fyrr en á lokaspurningunni.

 

Sem fyrr var liðið skipað þeim Björgu Björnsdóttur, Þorsteini Bergssyni og Hrólfi Eyjólfssyni.

Sigurinn er afar kærkominn, en þetta var í þriðja skiptið sem liðið hefur komist í úrslit en í fyrsta skipti sem sigur næst.


Þorsteinn í fjórða sinn í úrslitaþætti

„Ég var nú reyndar ekki í mínu besta formi, hálf ósofinn enda í miðjum sauðburði. Þátturinn var í erfiðari kantinum og ég myndi segja að Hrólfur hafi algerlega bjargað deginum með sinnu frammistöðu,“ sagði Þorsteinn þegar Austurfrétt náði tali af honum í hádeginu áður en hann fór í fjárhúsin.

Þorsteinn er reynslumesti maður liðsins, en hann var að klára sinn sjöunda vetur innan þess og hefur því beðið lengi eftir því að landa titlinum.

„Ég hef þrisvar sinnum áður lent í úrslitaþætti án þess að sigurinn lendi réttu megin, einu sinni áður á móti Reykjavík, sem og Kópavogi og Grindavík. Tvær þeirra viðureigna voru svipaðar og þessi, þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en í lokinn, þannig að vissulega var þetta orðin langþráður sigur.“

Þorsteinn segist ekki haft mikinn tíma til þess að hugsa um sigurinn eða skoða heillaóskir á samfélagsmiðlunum, en hann hafi fengið ótal símtöl, sum hver frá ókunnugu fólki víðs vegar um landið.

„Ég hef meðal annars fengið símtal frá Ísafirði og Vík í Mýrdal, en við eigum dygga stuðningsmenn um allt land, enda höfum við alltaf þótt skemmtilegt lið með léttleikann og húmorinn að leiðarljósi. verið nokkuð vinsælt lið. Við gleðjumst þegar vel gengur en kunnum einnig að taka því þegar ekki hefur gengið eins vel.“

Aðspurður hvort Þorsteinn sé búinn að ákveða með áframhaldandi setu sína innan liðsins segir hann; „Ég er búinn að ákveða að nú sé komið gott og tími til kominn að taka inn nýtt fólk. Það er í það minnsta afstaða mín í dag án þess þó að ég viti hvað gerist í haust.“

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar