Þrjár plötur og bók á afmælisárinu
Tónlistarmaðurinn Prins Póló fagnar tíu ára afmæli sínu í ár og veisluhöldin eru ekki af lakara taginu. Síðastliðin föstudag leit hljómplatan TÚRBÓ dagsins ljós, þá er veglegt afmælisrit í smíðum og tvær plötur til viðbótar koma út fyrir árslok.
„Segja má að TÚRBÓ innihaldi sautján gamlar lummur, steikar upp á nýtt. Við Árni úr FM Belfast (Árni Rúnar Hlöðversson) fórum í stúdíó í vetur og tókum upp alveg nýjar túrbóútgáfur af þeim lögum sem við höfum helst verið að spila á tónleikum gegnum tíðina, en í raun má segja að við séum að skjalfesta það sem við höfum verið að gera saman „læv” á síðustu árum. Við settum þau í nýjan búning, aðeins meira tempó, stuð og læti en í upprunarlegu útgáfunum, þetta eru svona hasarútgáfur,” segir Svavar Pétur Eysteinsson, sérlegur aðstoðarmaður Prins Póló.
Margs er að minnast
Svavar Pétur segir að eðlilega horfi prinsinn til baka yfir farinn veg á tímamótum sem þessum, auk þess að velta framtíðinni fyrir sér.
„Það eru tíu ár síðan Prins Póló fæddist í kjallara í húsi á Seyðisfirði. Nú er guttinn orðinn tíu ára og margs að minnast. Ég er að setja saman bók um tilvist hans sem ég skila af mér í prent í byrjun ágúst og Forlagið ætlar að gefa út í haust. Segja má að það verði grafískt afmælisrit, en ég vinn alla grafík fyrir hann og á gífurlegt magn af efni eftir þennan tíma, auk þess sem ég er að skrifa nýjar hugleiðingar um tilvist hans, lífið og listina. Þá er önnur safnplata í vinnslu þar sem sum af þeim lögum sem koma út á TÚRBÓ verða tekin aftur og þá í allt öðrum búningi. Þau verða í klassískari útgáfum þar sem búið verður að slökkva á reykvélinni og taka diskókúluna niður, já stemmningin verður öll hátíðlegri. Samhliða henni kemur svo jólaplata til þess að loka þessu með stæl.”
Verður prinsinum kálað?
Svavar Pétur segir ekki gott að segja hvað taki við hjá Prins Póló. „Óneitanlega veltir hann framtíðinni fyrir sér á þessum tímamótum, spyr sig; hvað svo? Hann er hreinlega ekki viss. Hann ætlar þó að leyfa sér að halda bara upp á afmælið í ár og horfa svo fram á veginn eftir áramót. Bæði er hann að spá í að láta þetta bara ráðast en einnig að velta fyrir sér drastískum ákvörðunum. Ég ætlaði alltaf að finna eitthvað gott tilefni til þess að kála honum en það hefur enn ekki orðið. Hann hangir því enn með mér og við vinnum nokkuð vel saman. Ef það fer hins vegar að koma þreyta í samstarfið verð ég að losa mig við hann með einhverjum hætti.”