Átti að bjóða út strax
Eins og fréttavefur
Austurgluggans greindi frá í gær sendi sveitarfélagið frá sér fréttatilkynningu
þar sem saga málsins var reifuð. Þar segir meðal annars: „Eftir miklar
vangaveltur bæjarstjórnar og starfsmanna Fljótsdalshéraðs og ráðgjafa þeirra um
fjármögnun, hönnun og byggingu skólans var tekin sú ákvörðun að leita samstarfs
við Eignarhaldsfélagið Fasteign hf (EFF).“
Sigurður B. Halldórsson,
lögfræðingur Samtaka iðnaðarins, segir sveitarfélagið hafa gert mistök með
þessu. „Sveitarfélagið gerði strax alvarleg mistök með samningum við
eignarhaldsfélagið. Þarna átti að bjóða verkið út, ekki fara í samtarf.
Fasteign hefði getað tekið þátt í þessu útboði eins og aðrir. Þarna er um gríðarlega
fjármuni og hagsmuni að ræða.“
Í kjölfar
umfjöllunar Austurgluggans seinasta fimmtudag sendi Sigurður bréf fyrir hönd SI
til fjármálaráðuneytisins þar sem farið er fram á að kærunefnd útboðsmála kanni
verklag við samningana. Í bréfinu segir að samkvæmt lögum um opinber innkaup beri
að bjóða verkið út á evrópska efnahagssvæðinu. Engu skipti hvort framkvæmdin sé
gerð í nafni sveitarfélagsins eða félagi í þess eigu. „Útboðsskyldan er með
öllu fortakslaus.“
Í bréfinu er
orðum Soffíu Lárusdóttur, forseta bæjarstjórnar, sem sagði í útvarpsviðtali að útboð hefðu reynst sveitarfélögum illa vísað á bug. Skýringar Soffíu eru sagðar „með öllu órökstuddar og
andstæðar lögum um opinber innkaup, en útboðsskyldan er hryggstykkið í þeim
lögum. Reynslan er þvert á móti sú að ríki og sveitarfélög spara peninga með að
fara með verk í útboð.“
Í samtali við
Austurgluggann sagðist Sigurður bíða úrskurðar ráðuneytisins um hvort málinu
yrði vísað til kærunefndarinnar. Það skýrðist líklega í vikunni. Hann vildi lítið
tjá sig um hugsanlega skaðabótaskyldu. Verkið væri hafið og samið við
Malarvinnslunnar en aðrir verktakar gætu talið sig hafa orðið fyrir tjóni. Hann
sagði samtökin vilja koma þeim skilaboðum á framfæri að sveitarfélög standi rétt að málum
við stórframkvæmdir.
Í bréfinu til ráðuneytisins
er vakin athygli á að ekki sé hægt að sjá að bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs hafi
sett sér útboðsreglur í samræmi við lög um opinber innkaup.