Tuttugasta LungA-hátíðin hafin

Listahátíð ungs fólks á Austurlandi (LungA) var sett á Seyðisfirði í tuttugasta sinn á laugardagskvöld. Yfir 100 þátttakendur taka þátt í listasmiðjum hátíðarinnar að þessu sinni en í boði eru fjöldi aukaviðburða sem gestir og gangandi geta notið.

„Þetta lítur rosalega vel út. Fólk er mætt, veðrið er fínt og orkan ofboðslega góð,“ segir Björt Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri hátíðarinnar.

Þungamiðja hátíðarinnar er að vanda listasmiðjur sem að þessu sinni eru átta talsins. Þar má meðal annars nefna gjörningasmiðju sem Hrafnhildur Arnardóttir stýrir. Hrafnhildur, sem notar listamannsnafnið Shoplifter, var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum fyrr á árinu.

Þá má nefna málstofu hátíðarinnar, LungA lab, sem að þessu snýst um hvernig kynslóðir framtíðarinnar líta til baka til okkar tíma. Fyrsti fyrirlesarinn þar verður Ólafur Stefánsson, fyrrum landsliðsmaður í handknattleik sem mætir til leiks í Herðubreið klukkan fimm í dag.

Björt segir hátíðina í ár með nokkuð hefðbundnu sniði. Stærsta breytingin verður sú að uppskeruhátíðin verður klukkan fimm á föstudag, í stað laugardags eins og áður. Á laugardag verður í staðinn markaðsdagur.

Þá verða alla vikuna gestavinnustofur í Gamla ríkinu þar sem gestir og gangandi geta komið við og fylgst með listamönnum að störfum.

„Fyrir utan tónleikana er ókeypis á allra viðburði og nánast frá morgni til kvölds er dagskrá sem hægt er að koma og taka þátt í. Mér finnst dagskráin í ár uppfull af spennandi viðburðum en ef ég að nefna einhvern hápunkt þá er það hvað hér er mikið af listamönnum á uppleið og fjölbreytni í viðburðum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar