Orkumálinn 2024

Tvær sýningar Jessicu Auer

Ljósmyndarinn Jessica Auer, sem búsett er á Seyðisfirði, hefur síðustu tvær helgar opnað tvær nýjar sýningar á verkum sínum, aðra á Seyðisfirði en hina á Egilsstöðum.

Á laugardaginn opnaði Jessica sýninguna „Landvörður“ í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Þar fjallar hún um sameiginlega ábyrgð fólks á náttúrunni, hvernig við snertum landið og það snertir okkur. Um bæði fólkið sem verndar landið og nýtir það.

Fyrir viku opnaði sýningin „Horft til norðurs“ í Skaftfell bistró á Seyðisfirði. Þar eru myndir úr myndaröð sem var aðalsýning Þjóðminjasafns Íslands árið 2020 og hafa ekki verið sýndar opinberlega síðan.

Myndaröðin er afrakstur fimm ára ferðalaga Jessicu um Ísland, kynnum hennar af hópum ferðamanna og nánum athugunum hennar á nærumhverfi nýrra heimkynna sinna. Þegar hún hófst handa við verkefnið ákvað hún að kanna aðalferðamannastaði Íslands. Myndirnar sýna augnablik þegar ferðamenn standa andspænis hinu náttúrulega umhverfi.

Jessica er frá Québec í Kanada en hefur verið með annan fótinn á Íslandi síðustu ár og stýrir Studio-Ströndinni á Seyðisfirði en kennir líka ljósmyndun við háskóla í Montréal í Kanada. Jessica hefur sýnt víða um heim og hlotið verðlaun fyrir ljósmyndun sína.

Báðar sýningarnar standa fram í apríl.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.