Orkumálinn 2024

Tveir Austfirðingar Íslandsmeistarar á Íslandsmóti iðn- og verkgreina

Tveir Austfirðingar og fyrrum nemendur Verkmenntaskóla Austurlands (VA) urðu um helgina Íslandsmeistarar í sínum greinum á Íslandsmóti iðn- og verkgreina. Það eru þau Irena Fönn Clemmensen, í hársnyrtiiðn, og Hlynur Karlsson í rafeindavirkjun.

Irena Fönn varð Íslandsmeistari í hársnyrtiiðn um helgina en fyrr á árinu vann hún til verðlauna í hársnyrtikeppni Canvas. Irena Fönn segir þetta fyrsta skiptið sem hún taki þátt í svona stórri keppni. „Þetta var mjög gaman og fyrsta skiptið sem ég tek þátt í svona stórri keppni. Ég hafði keppt í Canvas áður en þessi keppni var öðruvísi því það gerðist allt á staðnum,” segir Irena Fönn.

Irena Fönn keppti í einstaklingskeppninni í hársnyrtiiðn en keppendur voru samtals 12 í henni. Keppninni var skipt í fjölbreytt verkefni. „Við áttum að gera nokkra hluti, lita og klippa, herraklippingu, Hollywood waves og brúðargreiðsla þar sem við eigum að sýna okkar eigin listrænu hugmyndir,” segir Irena Fönn.

Irena segir að hún hafi ekki verið stressuð fyrir keppninni. „Ég tók aðallega þátt til að hafa gaman, en ég undirbjó mig vel og var ekkert stressuð. Ég og módelin vorum bara dansandi og syngjandi,” segir Irena Fönn. Hún segir að það kom henni á óvart þegar hún vann svo keppnina. „Ég bjóst ekki við því að ég myndi vinna, ég hafði það hugarfar að hafa gaman og njóta mín. Þetta var geðveik tilfinning því ég var ekki að búast við þessu.”

Hlynur Karlsson, rafeindavirki, varð Íslandsmeistari í sinni grein. Fyrr á árinu hlaut Hlynur viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur á sveinsprófi í rafeindavirkjun á Nýsveinahátíð Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík.

Í rafeindavirkjun voru fjórir keppendur. „Hinir þrír voru allir úr VMA og ég sá eini úr Tækniskólanum,” segir Hlynur. Keppninni var skipt í 6 verkefni sem dreifðust á fimmtudag, föstudag og laugardag. „Verkefnin voru miserfið en ekkert sem ég réð ekki við,” segir Hlynur. „Ég var þokkalega vel undirbúinn fyrir þetta þannig þetta var ekkert rosa stressandi. Það var mjög gaman að vinna, átti ekki von á því. Svo tekur við Euroskills keppnin í september.” Sigurvegarar úr nokkrum greinum í Íslandsmótinu fá tækifæri til að taka þátt í Euroskills keppninni sem mun fara fram í Gdansk í Póllandi í september.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.