Tveir nemar ME verðlaunaðir fyrir myndir á jólakort Hollvinasamtaka

Hollvinasamtök heilbrigðisþjónustu á Fljótsdalshéraði, HHF, hafa gefið út annað og þriðja kortið í röð jólakorta sem prýdd verða listaverkum nema af listnámsbraut Menntaskólans á Egilsstöðum. Kortin eru fjáröflunarverkefni HHF, sem styður sérstaklega við hjúkrunarheimilið Dyngju á Egilsstöðum og heilbrigðisþjónustuna á Héraði og Borgarfirði eystra.


HHF efndu í samstarfi við Ólöfu Björk Bragadóttur, verkefnisstjóra listnámsbrautar ME, til listaverkasamkeppni innan brautarinnar seint í haust. Til grundvallar var lagt að leitað væri að forsíðumynd fyrir jólakort HHF og að myndefnið væri tengt skógi.

35 tillögur bárust í samkeppnina. Dómnefnd skipuð þeim Steinrúnu Óttu Stefánsdóttur vöruhönnuði, Kristínu Hlíðkvist Skúladóttur myndmenntakennara, Kormáki Mána Hafsteinssyni ljósmyndara og Steinunni Ásmundsdóttur f.h. HHF, valdi úr hópi mjög frambærilegra verka tvær tillögur, sem ómögulegt reyndist að gera upp á milli.

Annars vegar er mynd eftir Kristrúnu Björgu Nikulásdóttur frá Egilsstöðum, sem er á 4. ári á listnámsbrautinni og hins vegar mynd eftir Kolbrúnu Drífu Eiríksdóttur á Egilsstöðum, á 3. ári á sömu braut. Kolbrún Drífa átti einnig verðlaunamynd jólakortsins 2015.

Í umsögn dómnefndar kom m.a. fram að innsend verk þessa árs sýndu metnað fyrir samkeppninni og þau hefðu mörg verið falleg og vel unnin. Verðlaunaverkin tvö voru efst og jöfn að stigum og var því ákveðið að verðlauna þau bæði og gefa út tvær gerðir korta fyrir þessi jól.

Um mynd Kristrúnar Bjargar sagði dómnefnd að hún væri vel unnin, einlæg og öðruvísi og bæri með sér hlýju og nostalgíu bernskunnar.

Mynd Kolbrúnar Drífu þótti einnig mjög vel unnin, myndbygging falleg, gott vægi og dýpt, litir fallegir og vel til fundið að nota hið íslenska birki sem myndefni.

Hlutu þær Kristrún Björg og Kolbrún Drífa 20 þúsund krónur hvor að launum og þakkarskjal frá HHF. Það var Hjálmar Jóelsson formaður HHF, sem afhenti þeim viðurkenninguna.

Jólakortin fást hjá Lyfju Egilsstöðum, á Bókakaffi við Lagarfljótsbrú, á skrifstofu Menntaskólans á Egilsstöðum og hjá stjórnarmönnum HHF.

hollvinir mynd1
Frá vinstri: Árni Ólason skólameistari ME, Ólöf Björk Bragadóttir, verkefnisstjóri listnámsbrautar ME, Kristrún Björg Nikulásdóttir og Kolbrún Drífa Eiríksdóttir, nemar á listnámsbraut ME og Hjálmar Jóelsson formaður HHF. Mynd: Magnús Þórhallsson.

hollvinir mynd2 web
Forsíðumynd jólakorts HHF 2016. Höfundur: Kristrún Björg Nikulásdóttir.

hollvinir mynd3 web
Forsíðumynd jólakorts HHF 2016. Höfundur: Kolbrún Drífa Eiríksdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar