Tvö austfirsk verkefni tilnefnd til Eyrarrósarinnar

Tvö menningarverkefni, sem haldin eru árlega á Seyðisfirði, eru meðal þeirra sex sem tilnefnd eru til Eyrarrósarinnar í ár. Verðlaunin verða afhent á morgun.

Á listanum að þessu sinni eru List í ljósi, sem haldin verður um næstu helgi og LungA skólinn.

„List í ljósi hefur vaxið ásmegin ár frá ári og laðar nú að sér breiðan hóp listafólks og gesta til þátttöku í metnaðarfullri og fjölbreyttri dagskrá. Í ár stendur hátíðin m.a. fyrir verkefni með aðkomu listafólks frá öllum Norðurlöndum sem munu skapa ljósaverk sérstaklega fyrir hátíðina.

Hápunktur List í ljósi er listaganga þar sem öll götu- og húsaljós í bænum eru slökkt og gestir geta gengið milli sýningarstaða til að njóta kvikmynda, innsetninga og ljósverka af ýmsum toga. Rík áhersla er lögð á þátttöku almennings í hátíðinni sem er bæði ókeypis og fjölskylduvæn,“ segir í umsögn um fyrrnefndu hátíðna.

Tilraunakenndur jarðvegur

„LungA skólinn er tilraunakenndur jarðvegur fyrir sköpun, listir og fagurfræði sem rekinn hefur verið af miklum metnaði á Seyðisfirði frá vorönn 2014 í góðum tengslum við LungA hátíðina. Hann er listaskóli fyrir þá sem hafa opinn huga, fyrir þá ótömdu og fyrir þá sem vilja rannsaka.

Skólinn ýtir undir sérstöðu hvers einstaklings og styður við bakið á nemendum svo þeir finni sér sína leið í átt að sterkari sjálfsmynd, ásamt því að þroskast, skilja betur heiminn og finna sitt hlutverk í honum. Í 84 daga – eða 12 vikur fá um það bil 20 ungmenni tækifæri til að þroska sig sem listamenn undir leiðsögn reynslumikils listafólks víðs vegar að úr heiminum,“ segir í umsögn um skólann.

Afhent í Garði á morgun

Eyrarrósin var fyrst afhent árið 2005 en hún er veitt fyrir afburða menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins. Verðlaununum er ætlað að beina sjónum að og hvetja til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista.

Þrjú austfirsk verkefni hafa áður hlotið hana: LungA, Skaftfell og Eistnaflug.

Elísa Reid, forsetafrú og verndari Eyrarrósarinnar, afhendir verðlaunin í Garði, heimabæ alþjóðlegu listahátíðarinnar Ferskra vinda, sem hlaut viðurkenninguna í fyrra. Sjálfri Eyrarrósinni fylgir tveggja milljón króna verðlaunafé en að auki munu tvö verkefnanna hljóta 500 þúsund króna verðlaun.

Í ár eru einnig tilnefnd: Act Alone leiklistar- og listahátíð, Suðureyri, Gamanmyndahátíð Flateyrar, Alþjóðlega kvikmyndahátíðin Norðanáttin (Nothern Wave), Snæfellsbæ, Plan-B listahátíð, Borgarnesi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar