„Þykir frábært að komast inn í stofu til heimamanna“

Verkefnið Hittu heimamanninn, eða Meet the locals, sem ferðaskrifstofan Tanni Travel á Eskifirði kom á fót fyrir þremur árum nýtur sífellt aukinna vinsælda meðal ferðafólks.


Verkefnið miðar að því að fólk komi á staðinn sem ferðamenn en fari sem hluti af samfélaginu, en einkunnarorð þess eru einmitt „Come as a guest, leave as a friend“.

Díana Mjöll Sveinsdóttir er framkvæmdastjóri Tanna Travel. „Verkefnið Meet the locals hófst fyrir þremur árum og hugmyndin kviknaði þegar við sátum á fundi þar sem við veltum því fyrir okkur hvað væri hægt að gera til þess að fá fólkið á svæðinu í lið með okkur til þess að sinna ferðafólki.

Við vorum lengi búin að velta því fram og til baka hvað væri merkilegast við Austurland og spurt fjölmarga íslenska og erlenda ferðamenn þeirrar spurningar. Það stóð ekki á svörum og voru þau yfirleitt þau sömu; fólkið.

Okkur þótti þetta svo skemmtilegt að við ákváðum að útfæra þessa hugmynd sem gengur einmitt út á að ferðafólk hitti heimafólkið,“ segir Díana Mjöll.

Boðið er upp á bæjargöngu með heimamanni, kvöldverð í heimahúsi og ýmsar dagsferðir. Þessi dagskrá er ekki síður í boði yfir vetrartímann þegar hægt er að lenda í ýmsum ævintýrum.

Díana Mjöll segir markmiðið vera að ferðamaðurinn kynnist Austurlandi, Austfirðingum, austfirskri menningu og siðum og taki virkan þátt í dagskránni í stað þessa að vera aðeins áhorfandi. Að hann upplifi íslensk sjávarþorp, sögu og menningu þeirra ásamt því einstaka fólki sem býr á stöðunum. Þegar fólk fer til baka til síns heima hefur það ekki aðeins séð fáfarnar slóðir heldur einnig kynnst fólki á svæðinu.

„Bæði ferðaþjónustuaðilar og heimamenn tilbúnir til þess að leggja sitt af mörkum til þess að gera dvöl ferðafólks sem ánægjulegasta. Þetta er algerlega að slá í gegn hjá ferðafólki sem þykir alveg frábært að komast alveg inn í stofu til heimamanna, heyra sögu þeirra og jafnvel skoða fjölskyldualbúmin, en heimsóknirnar eru vissulega eins misjafnar og þær eru margar. Við sjáum mikla möguleika í þessu verkefni og getum nánast gert allt sem okkur langar með það í framtíðinni,“ segir Díana Mjöll.

Fá svör við spurningum sem ekki eru að finna í bókum

Hjónin Svanhvít Yngvadóttir og Agnar Guðnason hafa nokkrum sinnum verið gestgjafar og boðið ferðafólki inn á heimili sitt. Svanhvít segir það mjög skemmtilegt og gefandi.

Veraldarvinir heimsóttu þau um daginn og segir ein úr hópnum, Christine Stevens, reynsluna hafa verið afar ánægjulega.

„Maður getur farið á netið og lesið allar staðreyndir um landið, en fær ekki að kynnast því hve yndislegt fólkið er fyrr en maður sest niður með því auk þess sem það býður upp á mat sem ekki er að finna á veitingahúsum og á svör við öllum þeim spurningum sem ekki eru endilega að finna í bókum. Þetta var alveg frábært.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar