Umhverfisvænni umbúðir hvetja til umhverfisvænna jólahalds

Ungmennaráð og félagsmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs bjóða gestum að koma og taka þátt í að pakka jólagjöfunum inn á umhverfisvænan hátt í Sláturhúsinu á Egilsstöðum í kvöld. Markmið viðburðarins er meðal annars að hvetja fólk til að hugsa út í afleiðingar mikillar neyslu um jólin.

„Það eru allir að reyna að rífa sig í gang í umhverfisverndinni og unglingarnir á Fljótsdalshéraði eru á bólakafi í henni. Þetta er hugmynd sem kom fyrst fram í ungmennaráðinu og hefur undið upp á sig,“ segir Vigdís Diljá Óskarsdóttir sem heldur utan um viðburðinn.

Búið er að safna saman fjölbreyttum efnivið til innpökkunar, svo sem dúkum og gardínum, kössum utan af morgunkorni, bókum, afklippum af greni og fleiru úr ýmsum áttum. Saumavél verður á staðnum fyrir þá sem vilja sauma margnota gjafapoka.

Nokkrir slíkir verða til staðar, auk annarra hugmynda og góðra ráða. „Fólk getur komið og gert það sem það vill. Allt efni er á staðnum svo það þarf bara að koma með gjafirnar.“

Vigdís segir markmið kvöldsins ekki síst vera vekja fólk til meðvitundar um umhverfisvænni jólahátíð. „Jólin hafa þróast yfir í að vera neysluhátíð, sorpmagnið eykst gríðarlega á þessum tíma.“

Gjafapappírinn er oft notaður bara einu sinni auk þess sem í glimmerpappír eru efni sem flækja endurvinnsluna verulega. Því er verðmætt að spara hann en Vigdís vonast eftir víðtækari áhrifum. „Um leið og maður hugsar og hagar sér á umhverfisvænni máta fer maður að skoða og gagnrýna það sem maður er vanur að gera og fer að velja umhverfisvænni gjafir og minni umbúðir.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar